*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 15. desember 2021 12:28

Nútímavæðing hluthafafunda með bálkakeðjutækni

Lokaðar bálkakeðjur henti starfsemi hlutafélaga vegna þess að þátttaka aðila er háð samþykki.

Erna Sigurðardóttir
Hægt er að nýta bálkakeðjur til að halda utan um atriði við framkvæmd hluthafafunda.
Haraldur Jónasson

Hluthafafundur er talinn gegna mikilvægu hlutverki sem æðsta vald hlutafélaga og lýðræðislegur vettvangur hluthafa. Rannsóknir á aðsókn á hefðbundna hluthafafundi og hluthafavirkni benda til þess að hluthafar standi frammi fyrir hindrunum við þátttöku, sérstaklega yfir landamæri og í tilviki minnihluta hluthafa, sem gefur til kynna að tækifæri sé til þess að styrkja hlutverk hluthafafunda. Með stafrænum lausnum er hægt að auðvelda hluthöfum að nýta réttindi sín og efla vettvanginn en mikilvægt er að huga að öryggi tæknilausna við framkvæmd rafrænna hluthafafunda, enda er netöryggi ein stærsta áskorun stjórnenda nú á dögum. Enda þótt umræða um heimildir til að halda rafræna hluthafafundi hafi aukist hérlendis í kjölfar heimsfaraldurs hefur lítið borið á umræðu um mögulegar tæknilausnir. 

Með tilkomu bálkakeðjutækninnar hefur umræða um hagnýtingu hennar í viðskiptalífinu aukist erlendis og talið er að eiginleikar tækninnar, sem stuðla að auknu gagnsæi og öryggi, geti komið að gagni við framkvæmd rafrænna hluthafafunda. Bálkakeðja er gagnagrunnur sem geymir upplýsingar á sannanlegan og óbreytanlegan hátt í dreifðri færsluskrá. Bálkakeðja heldur skrá yfir færslur í bálkum sem eru tengdir saman með dulkóðun. Þá er nær ómögulegt að breyta bálkakeðjunni vegna þess að hver bálkur inniheldur tímastimpil og tengil á fyrri bálk og saman mynda bálkarnir órjúfanlega keðju. Aukið traust felst í því að gögn eru ekki geymd í miðlægum gagnagrunni þar sem einn höfuðmiðlari hefur stjórn á færsluskránni. Bálkakeðjunni er viðhaldið af jafningjaneti þar sem hver þátttakandi geymir eintak af færsluskránni og er hún aðeins uppfærð ef samhljóða álit næst á meðal þátttakenda. 

Lokuð bálkakeðja hentar starfsemi hlutafélaga vegna þess að þátttaka aðila er háð samþykki. Færsluskráin er þá aðeins uppfærð af aðilum sem hafa fengið heimild til að taka þátt. Vegna eiginleika bálkakeðjutækninnar geta hluthafar treyst þessari uppbyggingu á geymslu gagna. Þessi tegund bálkakeðju hentar vel til að framkvæma atkvæðagreiðslur, halda hlutaskrá og halda utan um önnur atriði við framkvæmd hluthafafunda. Með snjallsamningum, sem er fínt orð yfir framkvæmanlegan kóða á bálkakeðju í „ef / þá" sniði, er hægt að hanna bálkakeðjuna í samræmi við starfsemi hlutafélags þar sem reglur um ákvarðanatöku, aðgang að upplýsingum og aðrar kröfur samkvæmt samþykktum og lögum eru innbyggðar í bálkakeðju hlutafélagsins. 

Nýrri tækni fylgja áhættur og er lagaleg óvissa ein helsta hindrun stjórnenda við notkun bálkakeðjunnar. Þessi nýja hugmyndafræði um gagnageymslu og stjórnun gagna vekur t.d. upp álitaefni við beitingu persónuverndarlaga á kerfi sem hefur ekki miðlægan gagnagrunn. Einnig má nefna álitaefni varðandi lögsögu og tæknilegar takmarkanir er varða netöryggi. Þrátt fyrir að notkun bálkakeðjutækninnar geti styrkt hlutverk hluthafafunda og verið liður í því að færa félagarétt til nútímahorfs og bæta stjórnarhætti eru ákveðin atriði sem þarf að varpa skýrara ljósi á áður en öruggt er að færa rafræna hluthafafundi alfarið yfir á bálkakeðjulausnir. 

Höfundur er Erna Sigurðardóttir lögfræðingur hjá RApyd, aðjúnkt við Háskólann á Bifröst og stjórnarmaður Rafmyntaráðs íslands. Umfjöllunin byggir á rannsóknarverkefni höfundar um bálkakeðjutækni og stjórnarhætti fyrirtækja. 

Greinin birtist í bókinni 300 stærstu, sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér.