Núverandi veiðigjald á útgerðarfyrirtæki er hugsað sem grunngjald í frumvarpi Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegsráðherra, um stjórn fiskveiða en til viðbótar kemur afkomutengt gjald eða auðlindarenta. Afkomutengda gjaldið getur tekið ríflega af tekjum útgerðar í góðæri en verður ekkert þegar afkoman er slök. Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins í dag.

Þar segir að í árferði eins og nú gæti þessi tvískipta gjaldtaka gefið um 15 milljarða í ríkissjóð, töluvert meira en það sem veiðigjaldið gefi af sér í dag. Frumvarp Steingríms geri ráð fyrir tvískiptu fiskveiðistjórnunarkerfi. Annars vegar sé svokallað nýtingarleyfi sem ríkið gefi útgerð að uppfylltum vissum skilyrðum en hinn hluti fiskveiðistjórnunar kerfisins verði opinn leigumarkaður með aflaheimildir, strandveiðar, byggðakvóta sem gefur mjög eftir í frumvarpinu og línuívilnun.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun aukning aflaheimilda í þorski umfram 202 þúsund tonn skiptast á milli útgerða (60%) og leigupotts (40%). Öll viðskipti með aflaheimildir munu fara fram um kvótaþing. Tekið er fram í fréttinni að enn sé togast á um einstök atriði milli stjórnarflokkanna; hlutfall afla í leigupotti og hvernig farið verði með aflaheimildir í nýjum tegundum eins og makríl.