Samtök atvinnulífsins segja að með núverandi ráðstöfunum um sóttkví sé ljóst að komandi vetur muni fela í sér stórkostlegar takmarkanir á skólahaldi með tilheyrandi raski fyrir fólk, fjölskyldur og vinnustaði þeirra. Persónubundnar sóttvarnir og ábyrg hegðun í umgengni við veiruna muni áfram reynast farsælasta vopnið gegn Covid 19. Vísindin segi okkur að við munum þurfa að lifa með veirunni áfram. Ef ætlunin sé ekki að lama skólastarf ítrekað í vetur, og þar með samfélagið í heild, þurfi að breyta reglunum.

Tilefni skrifa SA er að um þessar mundir er starfsemi frístundaheimila og leikskóla víða á höfuðborgarsvæðinu í lamasessi vegna Covid 19 smita. „Það verklag er nú viðhaft að loka heilum deildum og í einhverjum tilfellum nærliggjandi deildum ef upp koma smit á leikskólanum. Fullbólusettir foreldrar hafa þurft að sæta sóttkví vegna þessa auk annarra barna á heimilum landsins þar sem erfitt reynist að einangra útsett börn frá öðrum fjölskyldumeðlimum. Það blasir við að áþekk framvinda verður þegar grunn- og framhaldsskólar hefjast á næstu dögum," segir í frétt SA.

Segir SA að hægt sé að velja vægari úrræði en sóttkví heilu og hálfu árganganna í senn. Hraðpróf hljóti að koma til álita eins og hjá öðrum þjóðum. Dæmin frá nágrannalöndum sýni að fleiri en ein leið sé í boði.

Í því samhengi vísar SA til reynslu annarra þjóða sem Íslendingar bera sig gjarnan saman við og hvaða verklag þær hafa uppi til að bregðast við vágestinum:

  • Borgarar í Englandi og Norður-Írlandi sem teljast fullbólusettir gegn Covid-19 þurfa ekki lengur að fara í sóttkví ef þeir hafa komist í návígi við manneskju sem hefur sýkst af veirunni. Það sama á við um börn undir átján ára aldri. Í stað þess að fara í 10 daga sóttkví er þeim tilmælum beint til þeirra að taka PCR-próf, en þó er það ekki skylda. Þá er þeim ráðlagt að setja upp grímu þar sem ekki er hægt að tryggja fjarlægðarmörk og vera helst ekki í margmenni.
  • Í Danmörku er meginreglan sú að loka ekki skóla eða dagvistun þrátt fyrir að upp komi smit, með fyrirvara um að á því megi gera undantekningar ef smitið er útbreitt.
  • Í Svíþjóð gilda engar sérstakar reglur hvað skóla varðar heldur eru almenn tilmæli til fólks að fara varlega. Ef einstaklingur er útsettur fyrir smiti ber hann ábyrgð á því að vera vakandi yfir einkennum og ef kennari smitast er heilum deildum ekki lokað. Leikskólabörn eru ekki send í PCR-próf.
  • Í Noregi er reynt eftir fremsta megni að forða börnum yngri en 18 ára frá sóttkví. Fullbólusettir einstaklingar fara ekki í sóttkví, þrátt fyrir að vera útsettir fyrir smiti.

„Öll getum við sammælst um það að Íslendingar hafi staðið sig vel í baráttunni við veiruna. Varla þarf heldur að fjölyrða um mikilvægi þess að börn hafi aðgang að óskertu skólastarfi eða nauðsyn þess að hér geti nokkurn veginn óraskað og eðlilegt atvinnulíf fengið að þrífast. Skólastarf var ekki takmarkað sérstaklega með framlengingu reglugerðar heilbrigðisráðherra um samkomutakmarkanir, ef frá eru taldar sérreglur um grímunotkun," segir sömuleiðis í frétt SA.