Stærsti skjákortsframleiðandi heims, Nvidia, kynnti í dag nýja kynslóð skjákortsörgjörva á ráðstefnu í Vancouver í Kanada. Hin nýja kynslóð mun taka við af Volta kynslóðinni og bera nafnið Turing, væntanlega eftir tölvunarfræðigoðsögninni Alan Turing, en hver kynslóð heitir eftir mikilsvirtum vísindamanni, oft á sviði sem tengist rafmagns- eða tölvuvísindum.

„Turing er mikilvægasta framfaraskref Nvidia á sviði myndvinnslu í yfir áratug,“ sagði stofnandi og framkvæmdastjóri félagsins, Jensen Huang á ráðstefnunni.

Hlutabréf í félaginu hækkuðu í kjölfarið um 1,7%, og hafa nú hækkað um 34% frá áramótum. Einn greiningaraðili segist í samtali við CNBC vera bjartsýnn um að hin nýja kynslóð muni auka sölu fyrirtækisins á seinni hluta ársins, og benti á að sala skjákorta hafi aukist um 46% næstu 12 mánuði eftir að Pascal, síðasta stóra kynslóðin, kom út.