*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 19. maí 2018 16:01

Nvidia velur Advania

Advania Data Centers og Nvidia, stærsti framleiðandi heims af skjákortum, fara í samstarf um smíði ofurtölvu.

Ritstjórn
Magnús Eyjólfur Kristinsson er forstjóri Advania Data Centers sem komð er í samstarf við Nvidia.
Aðsend mynd

Hátæknirisinn Nvidia, sem er stærsti skjákortaframleiðandi heims, hefur valið Advania Data Centers sem opinberan samstarfsaðila sinn á Norðurlöndunum við þróun nýrrar tegundar ofurtölvu. Um er að ræða tækni sem auðveldar viðskiptavinum að framkvæma flókna útreikninga og hermanir á tölvulíkönum sem krefjast áður óþekktrar reiknigetu.

Í stað hefðbundins örgjörva fær tölvan reikniafl sitt úr fjölda sérsmíðaðra skjákorta sem auðvelda viðskiptavinum að framkvæma flókna útreikninga og hermanir á tölvulíkönum sem krefjast áður óþekktrar reiknigetu. Samanburðarmælingar sýna að slík notkun skjákorta getur skilað margfalt meiri afköstum og vinnslugetu en notkun hefðbundinna örgjörva segir í tilkynningu frá Advania.

Sérvöldum viðskiptavinum býðst nú þegar að nota frumgerð ofurtölvunnar, sem hýst er í gagnaveri Advania Data Centers hér á landi þar sem íslenskir sérfræðingar annast rekstur hennar og þróun hugbúnaðarlausna. Tilraunir með nýju ofurtölvuna hafa gefið góða raun, en ætlunin er að nýta reynslu fyrstu notenda til frekari viðskiptaþróunar, smíði nýrra hugbúnaðarlausna og þróunar á vélbúnaðinum sjálfum. 

Alþjóðlegar rannsóknarstofnanir meðal notenda

Meðal notenda hinnar nýju ofurtölvu eru alþjóðlegar rannsóknarstofnanir og fyrirtæki á sviði eðlis- og lífeðlisfræði, gervigreindar, jarðfræði, djúptauganetunar (e. Deep Learning) auk ýmissa verkfræði- og framleiðslufyrirtækja.

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers, segir verkefnið tæknilega áhugavert og setja fyrirtækið á stall með þeim sem fremst standi á þessu sviði. „Hitt er ekki síður spennandi, að í nýju ofurtölvunni verði gerðar tímamótarannsóknir og tilraunir sem gætu leitt til uppgötvana í læknavísindum, genafræðum o.s.frv. sem munu breyta heiminum. Það er óneitanlega sérkennilegt, en um leið spennandi, að vera hluti af slíkri vegferð,“  segir Eyjólfur Magnús.

Advania Data Centers er hátæknifyritæki sem sérhæfir sig í rekstri gagnavera, ofurtölva, blockchain og tölvubúnaðar sem hannaður er til að hámarka reiknigetu. Meðal viðskiptavina eru virtar rannsóknar-, vídinda- og menntastofnanir, bílahönnuðir og -framleiðendur, tækni- og framleiðslufyrirtæki.  Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi en félagið rekur einnig starfsstöðvar í Svíþjóð, Þýskalandi og Bretlandi.