Undanfarin misseri hefur Atorka aukið við hlutabréfastöðu sína í NWF Group, segir greiningardeild Glitnis og var eignarhluturinn kominn í um 18% við lok júní.

?Gengi félagsins hefur hækkað talsvert í ár eða um 30% í pundum talið en á síðasta ári lækkaði gengi félagsins talsvert. Frá því um miðjan júlí hefur NWF staðið að tveimur yfirtökum. Fyrst yfirtók félagið Arthur A Gent & Sons Ltd sem selur garðvörur. Í byrjun ágúst yfirtók NWF Group félagið Browns of Burnwell Limited en félagið er sérhæft í dreifingu á eldsneyti," segir greiningardeildin.

NFW Group skilaði góðri afkomu á síðasta fjárhagsári, samkvæmt bráðabirgðatölum jókst veltan um 24%, í 236 milljónir punda (31,8 milljarðar króna).

?Framlegð fyrir afskriftir jókst um 33% og hagnaður ársins var um 3,5 milljónir punda (471,6 milljónir króna). Stjórnendur stefna að auknum vexti félagsins í ár með áherslu á að auka framlegð enn frekar," segir greiningardeildin.

Atorka hefur ekkert sagt til um hvað félagið ætli sér með eignina en greiningardeildin telur að ekki sé um áhrifafjárfestingu að ræða. Máli sínu til stuðnings nefnir hún að Atorka á ekki fulltrúa í stjórn NWF Group.

?Aðalfundur NWF Group verður haldin í september og verður þá áhugavert að fylgjast með hvort fulltrúi Atorku taki sæti í stjórn félagsins," segir greiningardeildin.