Kauphöll Íslands hefur samþykkt tillögu um nýja aðferð við val í úrvalsvísitöluna, segir greiningardeild Landsbankans.

?Tillagan miðaði fyrst og fremst að því að auka áherslu á seljanleika við val í vísitöluna, en skráðum félögum hefur fækkað nokkuð undanfarin misseri, sem dregið hefur úr áhrifum seljanleika á valið," segir greiningardeildin.

Auk þess er verið að reyna að koma í veg fyrir að fækkun félaga á Aðallista Kauphallarinnar
minnki samkeppnina um að komast í Úrvalsvísitöluna. Þessi nýja aðferð mun taka í gildi við næsta val í Úrvalsvísitöluna, sem er í desember.

Raunsærra mat á floti

"Til viðbótar hefur Kauphöllin, að fengnum athugasemdum frá markaðsaðilum, ákveðið að breyta aðferð við flotleiðréttingu vegna vals og útreiknings Úrvalsvísitölunnar á þann veg að miðað verður við atkvæðisrétt fremur en eignarhald liggi fyrir opinberar upplýsingar um mun þar á," segir greiningardeildin.

Þetta eru góðar fréttir, að sögn greiningardeildarinnar, vegna þess að atkvæðisréttur gefur réttari mynd af eignarhaldi. Mun betri en opinbert eignarhald.

?Sér í lagi þegar um er að ræða eignarhluti sem skráðir eru á viðskiptabankana en í raun framkvæmdir fyrir hönd viðskiptavina bankans. Í slíkum tilfellum flyst atkvæðisrétturinn til kaupandans (þ.e. viðskiptavinar bankans) þrátt fyrir að bankinn sé áfram skráður eigandi," segir greiningardeildin.