Greiningardeild Kaupþings banka hefur gefið út afkomuspá vegna annars ársfjórðungs 2006 og uppfært verðmat sitt á Össuri.

?Á öðrum ársfjórðungi hefur þróun gjaldmiðla verið Össuri hagstæð en styrking evru á móti dollar og veiking íslensku krónunnar hafa jákvæð áhrif á rekstur félagsins að mati Greiningardeildar. Við gerum ráð fyrir því að velta félagsins verði tæplega 65 milljónir dollara á fjórðungnum og að EBITDA framlegð muni verða um 23%," segir greiningardeildin.

Styrking evru gagnvart bandaríkjadal gerir það þó að verkum að gengismunur verður af langtímalánum í evrum. ?Greiningardeild gerir ráð fyrir því að gengismunurinn verði um 3 milljónir dollara og hefur það veruleg áhrif niðurstöðu fjórðungsins. Við gerum ráð fyrir að hagnaður annars ársfjórðungs muni nema tæplega 3 milljónum dollara," segir greiningardeildin.

Uppfært verðmat

Verðmatið á Össuri hefur einnig verið uppfært. ?Helstu breytingar tengjast hreyfingum gjaldmiðla en þá höfum við einnig hækkað ávöxtunarkröfuna í ljósi hækkunar á vöxtum á helstu markaðssvæðum Össurar. Sjóðstreymisgreining gefur gengið 124,3 krónur á hlut (128,6 áður) og lækkum við tólf mánaða markgengi (Target price) úr 142 krónur á hlut í 137 krónur á hlut. Við útgáfu verðmatsins var verðmatsgengið um 20% yfir gengi Össurar á markaði (104 krónur á hlut) og markgengið rúmlega 30% hærra," segir greiningardeildin.

Greiningardeildir mælir með kaupum á bréfum í Össuri en áður var ráðgjöfin að mælt var með að fjárfesti auki við hlut sinn (e. accumulate).