Örtröð myndaðist í morgun við opnun nýrrar Apple-verslunar í Stokkhólmi. Að sögn Bjarna Ákasonar forstjóra fór þetta jafnvel enn betur af stað en þegar opnað var í Kaupmannahöfn fyrr á þessu ári.

Um eða yfir 200 manns biðu í alla nótt og klukkan tíu í morgun biðu vel á fimmta hundrað manns fyrir utan verslunina. Hamagangurinn var þvílíkur að menn höfðu á orði að aldrei hefði annað eins sést í borginni. Höfðu innfæddir reyndar spáð því að ekki tækist að fá Svía til að standa í biðröð, en Bjarni og félagar hafa greinilega afsannað það.

Uppúr hádegi höfðu yfir 1000 viðskiptavinir verið afgreiddir og hefur þar með fyrra met verið slegið. Verslunin er sú fjórða sem er opnuð á Norðurlöndum í eigu Íslendinga og er ætlunin að opna fjölda sérhæfðra verslana á næstu árum. Segir Bjarni að ætlunin sé að opna þrjár verslanir í Stokkhólmi og verið sé að leita að plássi víðar, eins og í Helsinki í Finnlandi og á fleiri stöðum í Danmörku.

Bjarni segir að Svíar séu vel upp aldir í Apple-menningunni og að því leyti mjög svipaðir og Íslendingar. Hann segist því ekki efast um að bjart sé framundan hjá Apple þar í landi.