Hin nýstofnaða Bankasýsla ríkisins fær 50 milljóna króna fjárheimild á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í gær. Lög um Bankasýsluna voru samþykkt á Alþingi í sumar en henni er ætlað að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum svo sem í bönkunum þremur og sparisjóðum.

Til stendur að ráða forstjóra yfir stofnunina og verður starfið auglýst á næstunni. Ekki liggur enn fyrir hve margir starfsmenn verða ráðnir.

Þorsteinn Þorsteinsson, stjórnarformaður Bankasýslunnar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að umsvif stofnunarinnar muni m.a. fara eftir því hve stóra hluta ríkið muni eignast í bönkunum þremur.

Vonir standa til að það ráðist í lok mánaðarins en þá er stefnt að því að skilanefndir Glitnis og Kaupþings verði búnar að ákveða, í samráði við kröfuhafa, hvort þær vilji eignast 95% í Íslandsbanka og 87% í Kaupþingi, eða að uppgjörið milli gömlu og nýju bankanna fari fram með skuldabréfum.

Ljóst er þó að ríkið verður eini eigandi nýja Landsbankans.

Þá liggur ekki fyrir hver hlutur ríkisins verður í sparisjóðunum en átta sparisjóðir hafa óskað eftir því að ríkissjóður leggi þeim til fé samkvæmt heimildum í neyðarlögunum.

Þeir sparisjóður eru: Sparisjóðurinn í Keflavík, Byr-sparisjóður, Sparisjóður Vestmannaeyja, Sparisjóður Norðfjarðar, Sparisjóður Bolungavíkur, Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Svarfdæla og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis.

Varla selt fyrr en eftir tvö ár

Þorsteinn segir í samtali við Viðskiptablaðið að hlutir ríkisins í fjármálafyrirtækjunum verði varla seldir fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár, vegna stöðu fyrirtækjanna og aðstæðna á markaði.

Bankasýslan hefur hins vegar heimild til að starfa í að minnsta kosti fimm ár. Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að gert sé ráð fyrir því að stofnunin fái 50 milljóna króna fjárheimildir árlega næstu fimm árin.

Nánar er rætt við Þorstein Þorsteinsson í Viðskiptablaðinu.