Matreiðslumeistarinn Völundur Snær Völundarson, eða Völli Snær eins og hann er jafnan kallaður, hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn þekktasti matreiðslumaður landsins. Hann er það sem á kjarnyrtu máli kallast stjörnukokkur. Undanfarin misseri hefur Völundur, sem eins og mörgum er kunnugt býr á Bahama-eyjum, unnið að því að koma sér á framfæri á erlendri grundu. Liður í því er nýleg stofnun The Basic Cookbook Company sem samkvæmt auglýsingu í Lögbirtingablaðinu var stofnað 5. september sl.

Völundur er bæði framkvæmdastjóri félagsins og stjórnarmaður þess en í varastjórn situr Þóra Sigurðardóttir, eiginkona hans. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Þóra að fyrirtækið sé stofnað til þess að halda utan um verkefni þeirra hjóna erlendis. „Undanfarin tvö ár höfum við unnið að gerð snjallsímaforrita fyrir iPhone og iPad og það fyrsta er væntanlegt innan nokkurra vikna. Auk þess höfum við verið að selja sjónvarpsþættina Delicious Iceland um allan heim, nú síðast til stórrar sjónvarpsstöðvar í Rússlandi,“ segir Þóra og bætir því við að þau hafi haldið úti vefsíðunni The Basic Cookbook í eitt og hálft ár og æ fleiri netverjar vafri þangað inn og fylgist reglulega með síðunni. „Þættirnir hafa þar einnig haft mikið að segja og við finnum alltaf aukningu á umferð á síðuna frá þeim löndum þar sem þættirnir eru í sýningu hverju sinni. Með þennan grunn erum við síðan spennt að halda áfram enda með ótrúlega gott teymi í kringum okkur úti um heim allan,“ segir Þóra.

Nánar um málið í VIðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blað vikunnar undir tölublöð.