Út er komin bókin Lifestyle Economics: A Health and Labor-market Analysis of Iceland eftir Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur, lektor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og höfund bókarinnar Holdafar – hagfræðileg greining (2007).   Í bókinni Lifestyle Economics eru ýmis tengsl á milli heilsu, lífsstíls og vinnumarkaðar skoðuð. Sérstök áhersla er lögð á heilsudreifingu, áfengismál og holdadafar í tengslum við íslenskan vinnumarkað. Bókin er gefin út af þýska fræðibókaforlaginu VDM Verlag Dr. Müller fyrir alþjóðlegan markað og er skrifuð á ensku. Það er margt við íslensk heilbrigðismál sem er áhugavert í mun víðara samhengi en því innlenda. Má þar nefna ýmsa mikilvæga þætti er varða heilsu landsmanna og teljast áhugaverðir til skoðunar, s.s. ungbarnadauði og lífslengd.

Í bókinni fjallar höfundur um hvernig heilsa og lífsstíll landsmanna hafa áhrif á vinnumarkað og hvernig íslenskur vinnumarkaður orkar á heilsu fólksins í landinu. Í Lifestyle Economics eru því samtvinnaðir ýmsir þættir úr heilsuhagfræði og vinnumarkaðshagfræði, en Tinna Laufey stýrir einmitt meistaranámi í heilsuhagfræði við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.