Ný Budz Boot Camp stöð var opnuð í Vejle í Danmörku í gær af þeim Árna Garðarssyni og Agli Rúnari Reynissyni. Stöðin er opnuð að fyrirmynd Boot Camp á Íslandi sem er að mestu í eigu þeirra Arnaldar Birgis Konráðssonar og Róberts Traustasonar, stofnenda Boot Camp hér á landi.

Þetta er önnur stöðin sem opnuð er í Danmörku en í september 2011 opnaði Budz Boot Camp stöð í Kaupmannahöfn. Sú stöð er í eigu Nick Watkins og íslenskrar eiginkonu hans, Anítu Watkins.

„Það er frábært að sjá þetta verða að veruleika,“ segir Arnaldur Birgir í samtali við Viðskiptablaðið, aðspurður um opnun nýrrar stöðvar í Danmörku.

„Budz Boot Camp í Kaupmannahöfn hefur vaxið jafnt og þétt, fengið mikla athygli og notið meiri vinsælda en maður hefði þorað að vona í upphafi.“

Báðar stöðvarnar leigja vörumerkið Budz Boot Camp af Boot Camp hér á landi. Arnaldur Birgir segir að markmiðið sé að upplifun viðskiptavina sé sú sama óháð því hvar menn stunda Boot Camp æfingar og vísar þannig til útlit og viðmót stöðvanna, æfingaaðferðir og fleira.

Stöðin í Vejle opnaði sem fyrr segir í gær í nýju húsnæði. Eigendur hennar hafa undanfarnar vikur undirbúið opnunina en þar áður luku þeir þjálfunarprófi í Boot Camp hér á landi. Leigan á vörumerkinu mun einnig fela í sér tekjur fyrir Boot Camp hér á landi eins og gerist og gengur þegar um vörumerkjasamninga er að ræða.

Mynd frá nýrri Budz Boot Camp stöð í Vejle í Danmörku.
Mynd frá nýrri Budz Boot Camp stöð í Vejle í Danmörku.

Stöðin í Vejle opnaði í nýju húsnæði í gær. Unnið hefur verið að því síðustu vikur að staðsetja húsið undir líkamsræktarstöð.

Frá nýrri Budz Boot Camp stöð í Vejle í Danmörku.
Frá nýrri Budz Boot Camp stöð í Vejle í Danmörku.

Séð innan í stöðina. Í leigu á vörmerkinu Budz Boot Camp felst að upplifun þeirra sé sem stunda Boot Camp sé sú sama hvar sem komið er. Til gamans má geta þess að sama græna litinn má finna í Boot Camp hér á landi.

Frá nýrri Budz Boot Camp stöð í Vejle í Danmörku.
Frá nýrri Budz Boot Camp stöð í Vejle í Danmörku.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hér má sjá mynd af „búrinu" eins og það er kallað.

Arnaldur Birgir Konráðsson og Róbert Traustason, stofnendur og eigendur Boot Camp.
Arnaldur Birgir Konráðsson og Róbert Traustason, stofnendur og eigendur Boot Camp.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Arnaldur Birgir Konráðsson og Róbert Traustason, stofnendur og eigendur Boot Camp á Íslandi. Þeir stofnuðu Boot Camp árið 2004 og fyrirtækið hefur vaxið jafnt og þétt síðan. Myndin hér að ofan er tekin þegar unnið var að því að opna Boot Camp stöð í Elliðaárdal sl. sumar.