Hagnaður Arion banka á liðnu ári nam 14,4 milljörðum króna og þó að það sé talsverð lækkun frá árinu þar á undan kveðst Höskuldur telja um mjög viðunandi rekstrarniðurstöðu að ræða. Bankinn sé öflugur í alla staði og í sóknarhug.

„Eins og í öllum rekstri þurfum við að glíma við mismunandi hluti á mismunandi tímum. En við lítum björtum augum á umhverfið og aðstæður. Vitanlega má alltaf hafa áhyggjur af einhverju og nú kannski helst vinnumarkaðinum og hugsanlegum átökum þar, en við vonum að það verði farið í gegnum mál með skynsemi að leiðarljósi.

Arion banki er öflugur og sterkur og við viljum stöðugt gera betur. Framundan eru m.a. miklar fjárfestingar í tengslum við innleiðingu á viðamiklu regluverki ásamt því sem tækninýjungar kalla á margvíslegar breytingar. Við verðum að muna að íslensku bankarnir veita ákaflega fjölbreytta og mikla þjónustu, en eru margfalt minni en t.d. stærstu bankar á Norðurlöndunum.

Við erum vön mjög góðu og háu þjónustustigi hérlendis og Arion banki er að gera nær allt það sama og t.d. Nordea Bank, sem er stærsti banki á Norðurlöndunum, en hann er þó hundrað sinnum stærri en við. Þetta er því barátta og keppni alla daga um að gera hlutina á skilvirkan hátt. Ég held að við séum að gera hlutina vel en getum gert enn betur.”

Snemma árs samþykkti hluthafafundur Arion banka að greiða 25 milljarða króna í arð til hluthafa bankans, og fyrir skömmu samþykkti stjórn hans að greiddur yrði arður til hluthafa sem nemur tíu milljörðum króna. Eigið fé bankans um seinustu áramót var 225,6 milljarðar „Fram að breyttu eignarhaldi og skráningu í kauphöll var í sjálfu sér enginn hvati fyrir eigendur að greiða arð og því hlóðst upp eiginfé, jafnvel meira en við vildum hafa,“ segir Höskuldur. „Vitaskuld þurfa bankar að vera vel fjármagnaðir en við getum sagt að það hafi verið ofgnótt eiginfjár í bankanum okkar, eins og í hinum bönkunum, og það tekur tíma að koma því með skipulögðum hætti niður í eðlilegt form.“

Finnurðu fyrir því að almenna útboðið í vor og skráning á markað hafi áhrif á stefnumótavinnu innan bankans og framtíðarsýn?

„Já, við vorum að mörgu leyti með sérstakt eignarhald og ein afleiðing þess var að þrátt fyrir verulegan hagnað og ágætis rekstur í gegnum árin greiddum við ekki út arð, sem er út af fyrir sig óvenjulegt. Nýir eigendur sem hafa fjárfest verulega í bankanum koma með ákveðna dýnamík inn í bankann og þá þykir ástæða til að skoða ýmsa hluti og athuga hvort við ættum að gera eitthvað öðruvísi en við höfum gert í gegnum tíðina.

Umhverfið í bankaheiminum er líka á fleygiferð, ekki síst með hröðum tæknibreytingum, og við þurfum að huga að því með margvíslegum hætti. Ég varð þess áskynja þegar við vorum að selja hlutabréfin í bankanum að erlendir fjárfestar höfðu gífurlega mikinn áhuga á hvernig bankinn stæði tæknilega, t.d. varðandi stafrænar lausnir, og drjúgur hluti fundartímans með fjárfestum fór í þau mál. Sem betur fer stendur Arion banki nokkuð vel í þeim efnum, við höfum fjárfest talsvert í tækni og þróun nýrra stafrænna lausna.

Samfara breyttu eignarhaldi þurfum við m.a. að horfa á hvernig við ætlum að þróa þessi mál áfram og hvort við ætlum að fjárfesta ennþá meira í tækni og nýjum lausnum eða haga nálguninni með öðrum hætti. Við viljum koma til móts við óskir allra viðskiptavina okkar og verðum því ekki eingöngu stafrænn banki heldur öflugur banki með bæði faglega ráðgjöf sem við veitum m.a. í útibúum okkar og góðar stafrænar lausnir. Markmiðið er að veita sífellt betri þjónustu – þægilegri þjónustu – og svara kalli viðskiptavina um breytta og nútímalega nálgun.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .