Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur ákveðið að hönnun og smíði Vestmannaeyjaferju verði boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu. Hönnun verður boðin út sérstaklega og í framhaldi af hönnun skipsins verður smíðin boðin út. Farið verður í opið útboð á EES svæðinu með kröfum á tilboðsgjafa, svo sem um reynslu, getu og tungumálakunnáttu. Miðað er við að hönnunin verði boðin út í byrjun maí á þessu ári, hún geti hafist í júlí og að henni ljúki í desember 2013. Stefnt er á að smíði nýrrar ferju verði lokið síðla árs 2015. Ferjan á að uppfylla forsendur Siglingastofnunnar til siglinga í Landeyjahöfn.

Fram kemur í tilkynningu frá Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, að Ögmundur og fulltrúar bæjarstjórnar Vestmannaeyja hafi í dag fundað með Ögmundi og hafi hann kynnt þeim áætlun um hönnun og smíði ferju. Fundinn sat m.a. Sigurður Áss Grétarsson, forstöðumaður hafnasviðs Siglingastofnunar.

Ráðast í endurbætur á Landeyjahöfn

Á fundinum settu forráðamenn Vestmannaeyjabæjar fram þrjú áhersluatriði. Að hönnun ferjunnar verði boðin út sérstaklega og að ferjan geti siglt á Þorlákshöfn þegar ekki gefur á Landeyjahöfn. Þá lögðu þeir áherslu á að ráðist verði í endurbætur á höfninni meðan ferja er smíðuð auk þess að kannað verði rækilega hvort unnt sé að fá annað skip en Herjólf til að annast siglingarnar þar til ný ferja kemst í gagnið.

Skipuð verður verkefnisstjórn sem mun undirbúa útboðið og munu í henni sitja fulltrúar innanríkisráðuneytisins, Vestmannaeyjabæjar, Vegagerðarinnar og Siglingastofnunar.