Því miður hefur umræða um uppbyggingu í íslenskri ferðaþjónustu verið á heldur neikvæð- um nótum í tengslum við hina gölnu hugmynd um náttúrupassa sem lukkulega hefur verið fargað enda fór þar dæmigerð lausn í leit að vandamáli. Á sama tíma heldur þó uppbygging áfram á fullri ferð. Ljóst er að hér á landi er að fæðast ný grein ferðaþjónustu og í raun ný tegund útivistar, fjallaskíðun sem engar kröfur gerir um ,,aðkomu“ eða ,,skilning“ hins opinbera. Fjallaskíðun felst í því að sett eru ,,skinn“ undir skíði sem gerir kleift að ganga upp brekkur þegar gengið er upp í móti. Sérstaklega útfærðar bindingar gera það að verkum að hægt er að læsa skíðaskó föstum eins og um venjulegar bindingar væri að ræða eða ganga með lausum hæl. Þegar svo upp er komið eru skinnin tekin af, hælbindingu læst og skíðað niður eftir getu hvers og eins. Fyrir þá sem hafa tök á að verja sem nemur andvirði laxveiðileyfis er svo hægt að lyfta góðri fjallaskíðaferð upp á topp með þyrluþjónustu.

Frumkvöðlar

Þegar komið er til Siglufjarðar blasir við einhver stórkostlegasta uppbygging sem átt hefur sér stað í íslensku sjávarplássi í seinni tíð. Athafnamaðurinn Róbert Guðfinnsson hefur lyft hér grettistaki með allsherjar uppbyggingu, nú síðast með byggingu glæsihótels sem mun lyfta Siglufirði upp á nýjan stall. Það er svo kannski ekki síður mikilvægt að einstaklega smekklega er staðið að allri endurnýjun og nýbyggingu húsa í bænum. Þegar Jökull Bergmann hóf hér þyrluskíðaþjónustu undir nafninu Bergmenn voru fáir trúaðir á að slíkt gæti gengið hér á landi. Nú er svo komið að annar aðili, Viking Heliski, rekið af tveimur fyrrverandi landsliðsmönnum, Jóhanni Hafstein og Björgvini Björgvinssyni, er á öðru starfsári að auki. Bréfritari átti þess kost að skíða í einn dag með Viking Heliski sem var einstök upplifun. Mikið er lagt upp úr öryggismálum. Allir gestir fara í gegnum námskeið þar sem kennd eru grundvallarviðbrögð við björgun úr snjóflóðum. Gisting er í 4-6 manna húsum hvert með heitum potti, matur og vínlisti fyrsta flokks.

Nánar er fjallað um fjallaskíði í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.