Fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 endurspeglar sterka stöðu og festu í stjórn opinberra fjármála í hægari takti hagkerfisins. Áætlunin vegur þungt í því mikilvæga verkefni opinberra fjármála, peningastefnunnar og vinnumarkaðarins að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og þeirri hagsæld sem landsmenn búa við um þessar mundir. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Í tilkynningunni kemur fram að í fjármálaáætlun sé tryggð áframhaldandi jákvæð afkoma opinberra fjármála. Skattlagning á heimili og fyrirtæki lækkar og skuldastaða ríkissjóðs og vaxtabyrði af hennar völdum heldur áfram að lækka jafnt og þétt. Komið verði á fót Þjóðarsjóði til þess að mæta hugsanlegum fjárhagsáföllum. Á sama tíma verða umtalsverðir fjármunir lagðir í að stuðla að samkomulagi um kjarasamninga á vinnumarkaði og myndarlega aukið við fjárfestingar hins opinbera, þegar fyrirséð er að atvinnuvegafjárfesting gefur eftir.

Skuldir ríkissjóðs vegna endurfjármögnunar fjármálakerfisins hafi verið greiddar upp að fullu og aðrar skuldir vegna hallareksturs umliðinna ára hafi einnig verið lækkaðar mikið. Við það hafi vaxtabyrðin lést til muna. Tollar og vörugjöld af iðnaðarvörum hafi auk þess verið felld niður undanfarin ár. Fá lönd í heiminum séu nú jafnopin fyrir viðskiptum og Ísland.

4 milljarða viðbótaraukning til samgönguframkvæmda

Áherslur ríkisstjórnarinnar í fjármálaáætluninni byggjast á grunni síðustu áætlunar og stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna. Í megindráttum eru útgjöld málefnasviðanna með svipuðu sniði og kom fram í fjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023. Með sérstökum ráðstöfunum, almennu aðhaldi og viðbótararðgreiðslum hefur skapast svigrúm til þess að auka framlög til nokkurra málaflokka í þessari áætlun.

Að frátöldum breytingum vegna ýmissa tæknilegra leiðréttinga nema breytingar á rammasettum útgjöldum frá gildandi fjármálaáætlun um 2,6 ma.kr. til lækkunar á árinu 2019. Munar þar mest um hliðrun verkefna tengdum byggingu nýja Landspítalans auk hliðrun ýmissa vegaframkvæmda.

Árið 2020 nema breytingar á rammasettum útgjöldum milli áætlana um 13,3 ma.kr., um 20,2 ma.kr. árið 2021, 27,8 ma.kr. á árinu 2022 og fyrir árið 2023 nema þessar breytingar um 24,3 ma.kr.

Helstu breytingar eru eftirfarandi:

  • Lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði á árunum 2020 og 2021 en kostnaður af þeirri aðgerð nemur 900 m.kr. 2020, 2,7 ma.kr. 2021 og 3,8 ma.kr. frá og með árinu 2022. (kjarasamningsmál).
  • Hækkun stofnframlaga til almennra íbúða um 2,1 ma.kr. frá og með árinu 2020 til ársins 2022 (kjarasamningsmál).
  • Alls 4 ma.kr. viðbótaraukning til samgönguframkvæmda frá og með 2020.
  • Veruleg aukning framlaga til nýsköpunarverkefna. Þar munar mest um 1,1 ma.kr. hækkun frá og með 2020 vegna rammaáætlana ESB um menntun, rannsóknir og tækniþróun, aukin framlög vegna endurgreiðslu kostnaðar til fyrirtækja við rannsóknir og þróun en í fjárlögum 2019 hækkuðu framlögin um 1 ma.kr. og munu þau hækka um 250 m.kr. árlega frá og með árinu 2021. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að hækka styrki til nýsköpunar um 500 m.kr. 2020, 1,5 ma.kr. árið 2021 og 2 ma.kr. árin 2022-2024.
  • Áframhald á fjárfestingu í sjúkrahúsþjónustu þar sem framkvæmdir við nýjan Landspítala vegur þyngst en stefnt er að því að ljúka við byggingu spítalans 2025. Alls nemur fjárfesting í sjúkrahúsþjónustu ríflega 74 ma.kr. á tímabilinu.
  • Aukin framlög til byggingar nýrra hjúkrunarrýma, þ.e. 500 m.kr. 2020, 1,5 ma.kr. 2021 og 2 ma.kr. árin 2022 og 2023.
  • Breytt útfærsla skattaaðgerða frá forsendum gildandi fjármálaáætlunar. Þar er um að ræða 1,6 ma.kr. vegna barnabóta, 400 m.kr. vegna stuðnings við bókaútgáfu og 400 m.kr. vegna aðgerða til að bæta starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla.
  • Aukin framlög til umhverfismála, sérstaklega í tengslum við loftslagsáætlun stjórnvalda
  • Breytingar á námslánakerfinu með námsstyrkjakerfi
  • Stofnstyrkir til kaupa eða byggingar almennra íbúða vaxa umtalsvert á árunum 2020-2022 og verða framlög vegna þeirra 3,8 ma.kr. á ári.
  • Nýtt hafrannsóknarskip verður smíðað á áætlunartímabilinu.

Tillögur sem styðja við gerð ábyrgra kjarasamninga

Þá er sagt frá því að launahækkanir sem orðið hafa á hagvaxtartímabilinu sem nú hefur varað samfellt frá árinu 2011 hafi skilað heimilum meiri kjarabótum en nokkru sinni fyrr. Þær hafi á hinn bóginn leitt til hækkunar launakostnaðar langt umfram það sem raunin hefur verið í helstu viðskiptalöndum Íslands og þar með skert verulega samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.

Allt bendi því til að frekari almennar launahækkanir muni við þessar aðstæður leiða til verðbólgu og aukins atvinnuleysis. Stjórnvöld hafi lagt fram ýmsar tillögur sem ætlað er að styðja við gerð ábyrgra kjarasamninga. Stefnt sé að auknum stuðningi við byggingu húsnæðis fyrir lágtekjufólk og við fyrstu kaupendur á húsnæðismarkaði í ljósi þess að húsnæðis- og leiguverð hefur hækkað talsvert umfram laun síðastliðin ár. Einnig felist lífskjarabætur í hækkun fæðingarorlofsgreiðslna og lengingu fæðingarorlofs sem ríkisstjórnin stefnir á að taki gildi á kjörtímabilinu.

Fjármálaáætlunina má nálgast hér .