Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mælti fyrir tveimur þingsályktunartillögum um fjarskiptaáætlun á Alþingi í dag, annars vegar stefnu í fjarskiptum til fimmtán ára og hins vegar aðgerðaáætlun til fimm ára. Þetta kemur fram í frétt á vef Stjórnarráðsins .

Ráðherra segir grunntón í áherslum og aðgerðum áætlunarinnar vera traust og öryggi.

Ný fjarskiptaáætlun felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og markmið í fjarskiptum, netöryggismálum, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands fyrir árin 2019–2033 en aðgerðaáætlunin nær til tímabilsins 2019-2023.

Ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að fjarskiptaáætlanir sem gerðar voru árin 2005 og 2012 hafi varðað farsæla þróun á sviði fjarskipta sem hafi komið Íslandi í fyrsta sæti í fjarskiptum og upplýsingatækni árið 2017 að mati Alþjóðafjarskiptasambandsins. Þriðju fjarskiptaáætluninni væri ætlað að fleyta þjóðinni enn lengra þannig að við héldum stöðu okkar sem eitt af forystulöndum heims í innviðum fjarskipta.

Í áætluninni er horft til umtalsverðrar og fyrirsjáanlegrar tækniþróunar, endurskoðunar á fyrirliggjandi stefnum og sameiningu stefna í fjarskiptum, netöryggismálum, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands. Einnig er tekið mið af samþættingu allra stefna og áætlana sem falla undir málefnasvið ráðuneytisins.