Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka, segir bankann sjá tækifæri í að útvíkka fjártæknilausnir ætlaðar almenningi, með það að markmiði að bæta kjör og auka samkeppni. Mikið hefur verið um að vera hjá Kviku undanfarin misseri en athygli hefur vakið að bankinn, hvers áhersla hefur ekki verið á viðskiptabankaþjónustu til einstaklinga, virðist vera að færa sig nær henni.

Bankinn kynnti sparnaðarleiðina Auði fyrir rúmum tveimur árum síðan og hefur síðan fest kaup á vörulánafyrirtækinu Netgíró og Aur-appinu, auk þess að samruni bankans og tryggingafélagsins TM, og þar með Lykils, gekk í gegn fyrr á árinu.

Marinó segir Kviku vera að þróa nýja fjártæknilausn fyrir almenning sem stefnt sé á að setja í loftið í haust.

„Fjártækni hefur verið að ryðja sér til rúms í heiminum og Ísland er ekki undanskilið því „trendi". Fjártækni hljómar kannski eins og flókið hugtak en það er ósköp einfalt, það er að nota tækni til að veita fjármálaþjónustu. Auður, sem dæmi, er í raun bara fjártæknilausn þar sem við erum bjóða sparnaðarreikninga, líkt og aðrir bankar, nema það er ekki hægt að heimsækja peningana sína í útibú og fá kaffi. Þjónustan er bara á netinu, sem kostar miklu minna og þannig gátum við boðið betri kjör. Við notuðum þannig fjártæknilausn til að skapa gagnkvæman ávinning fyrir viðskiptavini og bankann, viðskiptavinir fengu betri kjör og bankinn fékk fjármagn. Þetta ætlum við að gera áfram, að útvíkka fjármálaþjónustu með tæknilausnum, bjóða betri kjör og auka samkeppni," segir Marinó.

Hann segir viðskiptalíkan Kviku þó ekki hugsað til þess að bjóða einstaklingum alhliða fjármálaþjónustu.

„Það er ekki til neitt sem heitir rétt viðskiptalíkan, bara mismunandi viðskiptalíkön. Mikilvægast er að greina hvar styrkleikarnir liggja í hverju viðskiptalíkani fyrir sig og vinna með þá. Okkar viðskiptalíkan snýst ekki um að bjóða upp á alþjónustu, ólíkt stóru bönkunum sem eru að einhverju leyti að gera allt fyrir alla. Þeirra nálgun er góð og gild, en okkar viðskiptalíkan er frábrugðið og mætti segja að við gerum sumt fyrir suma."

Áhersla Kviku sé á að keppa á þeim sviðum sem bankinn hefur náttúrulega samkeppnishæfni:

„Og nú er bara spurningin, hvernig getum við nýtt viðskiptalíkanið sem best, til að finna þá fleti þar sem við getum nýtt náttúrulega samkeppnishæfni okkar, boðið upp á þjónustu með einföldum hætti, bætt kjör, breytt markaðnum og aukið samkeppni?"

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .