Greint var frá því í Viðskiptablaðinu í síðustu viku að barátta væri hafin um Morgunblaðið. Þá barst tilboð í 16,04% hlut Haraldar Sveinssonar í Árvakri útgáfufélagi Morgunblaðsins. Það var Íslandsbanki sem bauð fyrir hönd ónefnds hóps. Kom einnig fram að Kristinn Björnsson hafi verið að styrkja hlut í Árvakri að undanförnu og sé kominn með 16,3% beinan hlut eftir kaup á 10% hlut í félaginu í síðustu viku.

Kom þetta mál til umræðu á starfsmannafundi hjá Morgunblaðinu í gær. Bylgjan og Ríkisútvarpið fjalla um málið í dag og tala um að stjórnendur Morgunblaðsins óttist að hópur fjárfesta reyni nú að eignast ráðandi hlut í fyrirtækinu. Þá segir þar að óstaðfestar heimildir séu um að Meiður, sem er í eigu Bakkavararbræðra og fjárfestingafélagið Grettir, sem er í eigu Landsbanka og Tryggingamiðstöðvarinnar séu meðal þeirra sem standi að tilboðinu. Tilgáta er einnig um að stefnt sé að því að stofna risa fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki með því að sameina Morgunblaðið, Skjá 1 og Símann í eina blokk.