Lággjaldaflugfélagið Wizz Air tilkynnti fyrir stuttu að það myndi frá miðjum júnímánuði bjóða upp á tvær ferðir í viku hingað til lands frá Gdansk í Póllandi fram á haust. Er þetta í fyrsta sinn sem flugfélagið opnar flugleið hingað til lands.

Daniel De Carvalho, talsmaður Wizz Air, segir í samtali við Túrista að viðtökurnar við þessari nýju flugleið hafi verið í takt við væntingar. Segir hann að bæði íslenskir og pólskir farþegar hafi tekið flugleiðinni vel, en vill þó ekki segja hvernig salan skiptist á milli landanna.

Áður en Wizz Air tilkynnti um komu sína hingað til lands hafði Wow Air verið eina félagið með áætlunarflug frá Keflavíkurflugvelli til Póllands, eða til borgarinnar Varsjár. Eftir tilkynningu Wizz Air lækkuðu sumarfargjöld Wow air til landsins um 28 prósent samkvæmt úttekt Túrista, og má því leiða að því líkur að aukin samkeppni á þessum markaði hafi þegar haft jákvæð áhrif fyrir neytendur.