Ný forysta Framsóknarflokksins verður kjörin á morgun, sunnudag, en mikil óvissa ríkir um niðurstöðuna. Fimm eru í framboði til formennsku en talið er að þrír þeirra hafi helst möguleika, þeir Páll Magnússon, Höskuldur Þórhallsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Framsóknarmenn sem Viðskiptablaðið ræddi við telja ómögulegt að giska á hver sé líklegastur til að verða kjörinn.

Kosning til formennsku, varaformennsku og ritara hefst kl. 12 á sunnudag. Miðað er við að niðurstaðan liggi fyrir á þriðja tímanum.

Samkvæmt nýjum reglum flokksins þurfa frambjóðendur að hljóta að minnsta kosti fimmtíu prósent atkvæða til þess að hljóta kjör í embætti. Nái þeir því ekki þarf að kjósa aftur milli tveggja efstu.

Auk þeirra þriggja sem áður voru nefndir í formannskjörinu bjóða sig fram þeir Lúðvík Gizurarson og Jón Vigfús Guðjónsson.

Þá eru tveir í framboði til varaformanns, þau Siv Friðleifsdóttir og Birkir J. Jónsson.

Þrír vilja verða ritarar flokksins þau Sæunn Stefánsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Eygló Þóra Harðardóttir.