Í gær var tekin fyrsta skóflustunga að nýrri fóðurverksmiðju Líflands á Grundartanga. Í tilkynningu segir að nýja verksmiðjan marki tímamót í fóðuriðnaði hér á landi. Þær fóðurverksmiðjur sem hafa þjónað Íslendingum fram að þessu eru komnar til ára sinna.

Miðast við heilbrigðiskröfur ESB

Með nýrri tækni stóreykst öll nákvæmni við íblöndum vítamína, stein- og snefilefna sem eykur öryggi í framleiðslu og þar með gæði vörunnar. Orkunýting við framleiðsluna verður betri auk betri nýtingar og vinnslu  á öllum hráefnum.  Mesta breytingin er þó fullkominn aðskilnaður á hráefnum og hitameðhöndluðu fóðri sem stórbætir sóttvarnir gegn sjúkdómsvaldandi örverum segir í tilkynningu.

Nýja verksmiðjan gerir Íslendingum kleift að framleiða kjarnfóður með svipuðum tæknibúnaði og best gerist í Evrópu. Tækjakostur verður af fullkomnustu gerð og miðast við heilbrigðiskröfur ESB. Framleiðslugeta verksmiðjunnar verður 30 þús tonn á einni vakt.

Aukið öryggi á viðsjárverðum tímum

Nýja verksmiðjan bætir úr brýnni þörf fyrir geymslurými undir hráefni, hvort heldur er til fóðurgerðar eða manneldis. Það kom berlega í ljós í haust í efnahagshruninu að áhættusamt er að hafa einungis birgðir til 2-3 vikna í landinu að meðaltali ef eitthvað kemur upp á svo sem styrjaldir eða farsóttir og ferðir til landsins stöðvast. Geymslugeta í dag er rúmlega 13 þús tonn en við hana bætast um 8.000 tonn með nýrri verksmiðju.

Rís á hálfu ári

Reist verður verksmiðjuhús sem samanlagt spannar yfir 1.200 fermetra. Unnið verður hratt að uppsetningu og fyrirhugað er að nýja verksmiðjan hefji framleiðslu á vormánuðuðm 2010.

Gerður hefur verið samningur við verktaka úr Hvalfjarðarsveit um jarðvinnu og samið um  byggingu sökkla og botnplötu við aðra íslenska verktaka. Gert er ráð fyrir að að meðaltali verði á annan tug íslenskra iðnaðarmanna að vinna á svæðinu þá mánuði sem á framangreindum framkvæmdum stendur.