Ný gögn frá bresku lögfræðiskrifstofunni Mishcon de Reya hafa sett fundi Alþingis í uppnám í kvöld.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins höfðu gögnin borist Kristján Þór Júlíussyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Í framhaldi af því hefur fjárlaganefnd setið á fundum fram eftir kvöldi og þegar þetta er skrifað, kl. 21.45, situr nefndin enn á fundi.

Vegna þessa hefur þriðju umræðu um Icesave málið verið frestað um óákveðinn tíma.

Fjárlaganefnd hafði áður afgreitt málið úr nefndinni og vísað því til þriðju umræðu á Alþingi. Því er ekki um formlega meðferð á málinu að ræða á fundum fjárlaganefndar í kvöld. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðið þóttu upplýsingarnar aftur á móti það veigamiklar að þingfundi var frestað til að fjárlaganefnd gæti fundað með óformlegum hætti.

Þá hefur Viðskiptablaðið fengið þær upplýsingar að þau gögn sem nú eru til umræðu hafi ekki verið birt þingmönnum áður. Þau hafi ekki verið í trúnaðargögnum sem aðeins þingmenn fengu aðgang að í sumar og hafa heldur ekki verið birt á vefnum island.is þar sem önnur gögn, sem á annað borð hafa verið gerð opinber, hafa verið birt hingað til.

Ekki hafa fengist staðfestar upplýsingar um hvað gögnin innihalda. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins snúa þau að upplýsingum og verklagi samninganefndarinnar sem samdi fyrir Íslands hönd í Icesave málinu. Gögnin voru unnin af Mishcon de Reya í vor en hafa sem fyrr segir ekki verið gerð opinber ennþá. Ekki liggur enn fyrir hvers vegna þau hafa ekki verið birt áður, hvorki almenningi né öðrum þingmönnum.