Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman greinargerð um horfur í efnahagsmálum. Þar kemur m.a. fram að líkur séu á að hagvöxtur á árinu 2007 mælist yfir 5% en ekki innan við 1% eins og fjármálaráðuneytið heldur fram.

Tölur um þróun vinnumarkaðar benda jafnframt til þess að framleiðniaukning á árinu 2006 hafi verið umtalsverð og hagvöxtur hafi verið allt að 6%. Í greinargerðinni kemur fram að mikil hækkun á fasteignaverði undanfarin ár hafi gert það ómögulegt að ná 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans en stefna bankans hafi valdið skaða.

Vaxtastefna Seðlabankans leiði til gengissveiflna á krónunni og líklegt sé að það muni falla með hvelli á einhverjum tímapunkti. Í greinargerðinni er farið yfir horfur á vinnumarkaði og breyttar aðstæður í íslensku efnahagslífi. Þar segir m.a. að þörf sé á nýjum viðhorfum í stjórn efnahags- og atvinnumála í ljósi þess að fjármálageirinn sé orðinn stærsti útflutningsatvinnuvegurinn. Tekjumyndun og sveiflur í efnahagslífinu muni í framtíðinni verða með allt öðrum hætti en áður hefur þekkst.