„Í spánni er gert ráð fyrir að útflutningurinn aukist verulega sem meðal annars skýrist af möguleikum í aukinni loðnu og jafnframt er jákvætt að sjá batnandi viðskiptakjör. Það er vonandi að það gangi eftir því það skiptir öllu máli þegar við förum í afnámsferlið,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Viðskiptamoggann .

Seðlabankinn hækkaði hagvaxtarspá sína fyrir árið í gær og býst hann nú við 4,2% hagvexti á árinu í stað 3,5% vaxtar sem hann hafði spáð í nóvember.

„Það er jákvætt þegar við erum að fá meiri gjaldeyri fyrir okkar útflutningsvörur og þurfum að borga minni gjaldeyri fyrir okkar innflutning, sem minnkar þá þrýstinginn á krónuna. Við þurfum að hafa stöðugleika, sterkan hagvöxt og afgang á viðskiptajöfnuði. Ef spáin gengur eftir ætti það að auðvelda losun haftanna,“ segir Ásdís.