Á afmælisdag aðalsöguhetjunnar, þann 31. júní næstkomandi, mun ný bók í Harry Potter seríunni koma út, en bókin „Harry Potter and the Cursed Child“ eins og hún heitir á frummálinu er þegar farin að slá sölumet.

Mest fyrirframpöntaða bókin síðan sú sjöunda í seríunni kom út

Samkvæmt hvort tveggja vefversluninni Amazon og bókaverslunarkeðjunni Barnes & Noble þá er bókin sú sem mest hefur verið fyrirframpöntuð síðan sú sjöunda og hingað til síðasta bókin í seríunni, Harry Potter og dauðadjásnin kom út.

Seldist hún 15 milljón eintökum á heimsvísu á fyrsta söludegi sínum árið 2007.

Bókin er handrit, ekki skrifuð af J.K. Rowling

Bókin er þó ekki skrifuð af höfundi seríunnar, J.K. Rowling, heldur er þetta handrit, skrifað af Jack Thorne handritshöfundi leikrits sem ber sama nafn. Verður leikritið frumsýnt á laugardag, degi fyrir útgáfudag bókarinnar í London.

Fjallar sagan um Harry Potter sem fullorðinn mann sem vinnur í galdraráðuneytinu, er eiginmaður og faðir þriggja barna á skólaaldri.

Miðnæturopnun í Nexus

Þess má geta að klukkan 11 á laugardagskvöld, sem er miðnætti í Bretlandi, mun verslunin Nexus í Nóatúni opna dyr verslunar sinnar og byrja að selja bókina. Jafnframt er hægt að panta bókina fyrirfram þar og eflaust í fleiri bókabúðum.

„Við væntum þess að þetta verði mest selda bók ársins,“ segir Mary Amicucci, aðalvörustjóri hjá Barnes & Noble. Jafnframt er bókin sú sem mest hefur verið fyrirframpöntuð hjá Amazon, hvort tveggja í hefðbundnu bókaformi sem og í rafbókarformi.

„Ég get vel séð fyrir mér að formið höfði til ungra aðdáenda og þeir muni nota bókina til að setja upp leikritið sjálfir,“ segir Seira Wilson hjá Amazon.