Ríkiskaup auglýstu um helgina eftir tilboðum í byggingu 1.áfanga viðbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Það er Framkvæmdasýsla ríkisins, f.h. heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins sem sér um framkvæmdina. Um er að ræða nýbyggingu rúmlega 4 þúsund fermetra að stærð, sem rísa mun vestan við núverandi sjúkrahúsbyggingu á Selfossi og tengjast henni með léttbyggðri tengiálmu. Í útboðsgögnum sem sala hefst á næstkomandi þriðjudag, mun meginhluti byggingarinnar verða þrjár hæðir.

Á fyrstu hæð er ráðgerð heilsugæslustöð og á annarri hæð hjúkrunarheimili. Í kjallara verða tæknirými, fundarsalur, endurhæfing, geymslur og nokkurt óráðstafað rými auk kapellu sem staðsett verður í tengiálmu. Verkið verður unnið í tveimur áföngum. Verkinu skal vera að fullu lokið eigi síðar en 1. febrúar 2007 en tilboðin verða opnuð hjá Ríkiskaupum þriðjudaginn 5. október kl. 15.00 að viðstöddum þeim bjóðendum, sem þess óska.