Líkamsræktarþjálfarinn Sigríður Halldóra Matthíasdóttir, betur þekkt sem Sigga Dóra, hefur opnað nýja heilsumiðstöð að Stórhöfða 17 í Reykjavík. Í dag, sunnudaginn 3. janúar á milli kl. 13 og 18 verður haldið opið hús hjá Heilsumiðstöðinni og eru allir velkomnir.

Gestum mun m.a. gefast kostur á að smakka á heilsudrykkjum og fara í ókeypis brennslumælingu. Eftir mikið át og afslöppun yfir hátíðarnar er áramótaheit margra að koma sér í betra form á árinu 2010 og þarna gefst gott tækifæri til að skoða ólíkar leiðir til að efna þessi heit.

Heilsumiðstöð Siggu Dóru er öðruvísi en hefðbundnar líkamsræktarstöðvar en mikil áhersla er lögð á persónubundna þjálfun og aðhald. Aðstaðan er lítil og notaleg og hentar vel fyrir þá sem vilja æfa í rólegu og þægilegu umhverfi.

Fjölbreytt námskeið eru í boði hjá Heilsumiðstöðinni eins og Rope Action námskeið, Jane Fonda námskeið, lifðu lífinu lifandi og ýmis dansnámskeið. Gufubað, nuddarar og höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferðir eru einnig til staðar. Sigga Dóra býður upp á brennslumælingu á öllum námskeiðunum þar sem ástand líkamans er mælt en mælingin sýnir hlutfall fitu, vatns og vöðva líkamans og finnur út hve mörgum hitaeiningum líkaminn brennir. Fólki er svo kennt hvernig það getur stækkað brennsluofninn og þar með aukið brennslu líkamans.