Íslensk verðbréf (ÍV) tóku nýlega til notkunar ÍV Hlutabréfavísitöluna sem byggir á sérstakri aðferðafræði sem þróuð er af sjóð- stýringarfélaginu. Vísitalan mælir fjárfestingarhæfni hlutabréfa skráðra félaga á Aðalmarkaði Kauphallarinnar í gegnum seljanleika þeirra. Þessi seljanleiki, sem er skilgreindur sérstaklega af ÍV, ákvarðar vigt bréfa í vísitölunni þannig að því meiri seljanleika sem bréf hefur því meira vægi hefur það í vísitölunni.

Við gerð vísitölunnar er tekið tillit til þriggja þátta sem hver og einn gefur ákveðna sýn á seljanleikann. Þessir þættir eru markaðsverðmæti, velta bréfa á markaði og virkni og umfang samninga um viðskiptavakt. Vægi þessara þátta er skipt þannig að markaðsverðmæti bréfa hefur 40% vægi, velta þeirra 40% vægi og viðskiptavakt 20%.

Seljanleiki góður mælikvarði

„Við erum að reyna að finna leið til að mæla markaðinn með aðeins öðruvísi hætti en gert hefur verið á Íslandi enn sem komið er,“ segir Hreinn Þór Hauksson, sjóðsstjóri hjá ÍV Sjóðum.

„Okkar skoðun er sú að seljanleiki er góður mælikvarði á gæði fjárfestinga og það er út frá áhættudreifingu. Það þýðir í raun að það sé auðvelt að koma bréfinu í verð án þess að það hafi áhrif á heildarvirði bréfsins. Í vel dreifðu safni viltu hafa sem flest bréf vel seljanleg og að þau séu vel dreifð á milli flokka. Að hvert og eitt bréf leggi sitt af mörkum í verðmyndun eignasafnsins,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .