Ný House of Fraser verslun var opnuð á fjórum hæðum í Cabot Cirkus í Bristol á Englandi í dag.

Þetta kemur fram á vef Baugs.

Þar segir að í nýlegum verslunum í Belfast og High Wycombe eru nýjar deildir kynntar til sögunnar, en verslunin í Bristol endurspeglar hins vegar nýja ásýnd House of Fraser.

„Útlitið á að marka framtíðaráform stjórnenda HoF um að verða leiðandi vöruhús í Bretlandi og á Írlandi í sölu tískuvarnings frá bestu hönnuðum veraldar og um leið gera heimsókn þangað að ógleymanlegri verslunarferð,“ segir á vef Baugs.

Í nýju HoF-versluninni í Bristol má finna sérstakar deildir fyrir herraskó, fylgihluti fyrir herra, hugmyndir fyrir heimilið, tískuvörudeildir fyrir konur og karla, undirfatnað, barnaföt, snyrtistofur og kaffihús.

Þá segir á vef Baugs að House of Fraser verslunin verður þungamiðjan í uppbyggingu verslunar- og tómstundamiðstöðvarinnar, sem kölluð hefur verið Cabot Cirkus í Bristol.

Áætlaður kostnaður við uppbygginguna er um 500 milljónir punda. Um er að ræða einhverjar stærstu framkvæmdir í hjarta Bristol síðan í seinni heimsstyrjöldinni, enda verður Cabot Cirkus meira en 200 þúsund fermetrar.

Cabot Cirkus mun auk HoF hýsa þekktar tískuvöruverslanir, heilsuræktarstöðvar, íbúðir, skrifstofur og athafnasvæði fyrir almenning.