Áætlaður kostnaður við ný Hvalfjarðargöng er um 7,5 milljarðar króna að virðisaukaskatti meðtöldum á verðlagi um mánaðarmótin maí/júní 2008.

Þá er reiknað með öllum verkkostnaði og tilheyrandi búnaði ganganna ásamt  vegskálum og vegtengingum beggja vegna auk kostnaðar við hönnun, umsjón og eftirlit. Fjármagnskostnaður er ekki meðtalinn og heldur ekki kostnaður vegna landakaupa.

Þetta kemur m.a. fram í fréttatilkynningu vegna afhendingar Spalar á skýrslu um kostnað vegna gerðar nýrra jarðaganga undir Hvalfjörð sem afhent verður samgönguráðaherra í dag, á tíu ára afmæli Hvalfjarðarganga.

Skýrslan lýsir rannsóknum og tæknilegri undirbúningsvinnu vegna nýrra ganga undir Hvalfjörð á vegum verkfræðistofanna Hnits, Mannvits og RTS og Jarðfræðistofunnar ehf. Stjórn Spalar telur að hefja verði framkvæmdir við ný göng undir Hvalfjörð og við tvöföldun vegar á Kjalarnesi ekki síðar en 2011 eða 2012.

Ætla má að um þrjú og hálft ár líði frá því vinna hefst við hönnun nýrra ganga til útboðs þar til göngin verða tekin í gagnið. Áður en næsta skref verður stigið nú þarf að ljúka tveimur mikilvægum þáttum málsins, annars vegar tilheyrandi landakaupum og hins vegar skipulagsferli beggja vegna Hvalfjarðar. Landakaupin eru á forræði Vegagerðarinnar og undirbúningur þar að lútandi er hafinn. Þá er unnið að nýju aðalskipulagi Hvalfjarðarsveitar og breytingum á aðalskipulagi á Kjalarnesi.