Kaupsamningum íbúða hefur fækkað frá því í fyrra en nýjar tölur benda til þess að samdrátturinn sé minni en áður var talið. Áframhaldandi þróun virðist vera til raunverðslækkunar íbúða á höfuðborgarsvæði að því er fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.

Hrein ný íbúðalán fjármálastofnana til heimila tók verulegan kipp í október. Árið í heild sinni er þó svipað og í fyrra, en óverðtryggð lán hafa verið mun vinsælli á þessu ári en þau voru í fyrra. Byggingariðnaðurinn stóð vel árið 2018, bæði hvað varðar veltu og hagnað. Þá virðist fjármögnun almennt ganga ágætlega innan greinarinnar.

Leiguverð liggur á bilinu 99.000 – 277.000 kr. á mánuði í 9 af hverjum 10 í þinglýstum leigusamningum á árinu. Er það lítil breyting frá árinu 2018 en töluvert hærra en fyrir fimm árum.

Aðeins ein af hverjum tuttugu seldum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu fóru á 30 milljón krónur eða minna. Árið 2015 átti það við um tæpan þriðjung seldra íbúða og árið 2012 átti það við yfir helming íbúða þótt miðað sé við fast verðlag.

Færri kaupsamningar

Kaupsamningum um stakar eignir á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað á fyrstu 10 mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Ný gögn gefa hins vegar til kynna að samdrátturinn sé minni en áður var talið.

Þá er veltan á bakvið þau viðskipti á íbúðamarkaði það sem af er ári komin á par við sama tímabil í fyrra að nafnvirði á landinu öllu en dregst saman um 1% á höfuðborgarsvæðinu en eykst um 1% í nágrannasveitarfélögum og á Akureyri. Fasteignamarkaðurinn virðist því heldur líflegri í haust heldur en í lok sumars miðað við sama tímabil í fyrra.

Íbúum hefur fjölgað langmest á Suðurnesjum frá árinu 2008 eða um rúmlega 30%. Fjölgun íbúða hefur einnig hvergi verið meiri á sama tíma eða um 10% sem er þó ekki nóg til þess að halda í við íbúafjölgun.

Október stærstur í hreinum íbúðalánum

Leigufjárhæð hefur verið að jafnaði um 182 þúsund kr. á mánuði sé miðað við miðgildi þinglýstra samninga það sem af er ári. Í níu af hverjum tíu þinglýstum leigusamningum á höfuðborgarsvæðinu liggur leigufjárhæð á bilinu 99.000 – 277.000 krónur á mánuði en til samanburðar var sambærilegt bil 94.000 – 284.000 árið 2018 og 72.000 – 216.000 kr. árið 2013 á föstu verðlagi.

Hrein ný íbúðalán til heimila námu alls um 22,2 milljörðum króna í október síðastliðnum og mældust 36% hærri en í september og 44% hærri en í október í fyrra. Frá sama tímabili í fyrra hafa heildarfjárhæðir nýrra íbúðalána heimilanna, að frádregnum umfram- og uppgreiðslum eldri lána, aukist um 1,3% að nafnvirði.

Samsetning lána hefur tekið stakkaskiptum því óverðtryggð lánhafa vaxið um nær 30% á milli ára en á móti vegur að hrein ný verðtryggð lán drógust saman um 37% á verðlagi hvors árs. Þá virðist hlutdeild lífeyrissjóða á íbúðalánamarkaði hafa aukist lítillega.

Útlánavöxtinn í októbermánuði má að mestu leyti rekja til mikillar aukningar í hreinum nýjum óverðtryggðum útlánum lífeyrissjóðanna.

Ástæður þeirrar  aukningar er þó ekki hægt að rekja beint til aukinnar aðsóknar til nýrra lána lífeyrissjóðanna í októbermánuði einum og sér heldur þess að eitthvað hefur verið um að lífeyrissjóðir hafi gert átak í því að hreinsa upp í þeim umsóknarstöflum sem myndast höfðu frá því í sumar/haust.

Því er hér fyrst og fremst um að ræða einskiptisaðgerðir ákveðinna stórra lífeyrissjóða en ekki stökkbreytingar í umsóknum nýrra lána.

Áframhaldandi vöxtur í byggingariðnaði

Mikill vöxtur mældist í veltu fyrirtækja í byggingariðnaði árin 2015 og 2016 og á tímabili var 12 mánaða aukning veltu á raunvirði allt að 68%. Á síðasta VSK-tímabili sem birtar veltutölur ná til (júlí-ágúst 2019) nam 12 mánaða aukning veltu hins vegar um 2% á raunvirði.

Heildar útistandandi lán byggingargeirans í bankakerfinu hafa farið áfram vaxandi allt frá miðju ári 2014, en 12 mánaða vöxtur frá október 2018 til 2019 mælist um 19,3% samanborið við 0,9% vöxt hjá atvinnufyrirtækjum alls. Mögulega er það til marks um ágætt aðgengi fyrirtækja í byggingariðnaði að fjármagni.