Búist er við að tölvuframleiðandinn Apple kynni næstu kynslóð iPad-spjaldtölvu á viðburði í San Fransisco í Bandaríkjunum í dag. Tölvan hefur enn ekki sést opinberlega en talið er að hún sé þynnri og öflugri en sú fyrri.

Spjaldtölva Apple var sú fyrsta sinnar tegundar á markað. Aðrir framleiðendur eru nú farnir að framleiða og hanna sínar útgáfur af slíkum tölvum og samkeppnin því aukist. Á innan við ári hefur iPad orðið ein vinsælasta vara Apple og er nú vinsælli en iPod. Bloomberg segir frá í dag.

Í febrúar greindu erlendir miðlar frá því að útgáfa nýs iPad yrði frestað vegna vandræða við framleiðslu. Svo virðist sem þær fréttir, sem byggðu á tölvupósti frá framleiðanda til Apple, hafi ekki verið réttar og ný tölva verði kynnt í dag.