Í nýrri þjóðhagsspá frá greiningardeild Glitnis sem kom út í dag segir að hafið sé tveggja ára stöðnunarskeið í íslensku efnahagslífi.

Greining Glitnis spáir því að hagvöxtur verði 0% á þessu ári og 0,2% árið 2009 og að samhliða því muni verðbólga hjaðna. Samkvæmt spánni verður verðbólga um 8% í árslok og verðbólgumarkmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu mun nást um mitt sumar 2009.

Greining Glitnis segir ytri aðstæður vera hagkerfinu óhagstæðar um þessar mundir. Áhrif lánsfjárkreppunnar hafi verið víðtæk og langvinn og hægt hafi á hagvexti á heimsvísu af þeim sökum.

Þá sé olíu- og hrávöruverð afar hátt. Í ofanálag sé hagkerfi Íslands að takast á við endalok umfangsmikilla stóriðjuframkvæmda og niðurskurð aflaheimilda. Það sé því margt sem dragi niður hagvöxtinn hér á landi um þessar mundir.

Jafnvægi náð

Í fréttatilkynningu frá Glitni um þjóðhagsspána segir:

„Fyrirséð er að innlend eftirspurn mun dragast saman bæði þetta ár og hið næsta, en á móti kemur bati á utanríkisviðskiptum. Ágjöfin á þjóðarbúskapinn verður þannig til að hraða nauðsynlegri þróun í átt til jafnvægis eftir ójafnvægi undanfarinna ára. Við gerum ráð fyrir að viðskiptahalli verði ríflega 14% af landsframleiðslu á þessu ári en minnki í tæp 10% strax á næsta ári. Á seinni hluta spátímans [2010-2011] gerum við ráð fyrir að viðskiptahalli minnki jafnt og þétt og verði nálægt því sem kalla má sjálfbæran halla í upphafi nýs áratugar. (5-6% af landsframleiðslu).“

Einnig gerir spá Glitnis ráð fyrir því að gengi krónunnar styrkist nokkuð á næstunni. Gert er ráð fyrir að gengisvísitalan verði nálægt 135 stigum í lok þessa árs og krónan styrkist hægt og bítandi á næstu árum og gengisvísitalan verði í grennd við 122 stig í lok árs 2011.