Verðbólga árið 2007 jókst í 5,0% vegna aukinnar spennu á fasteignamarkaði. Gengislækkun krónunnar frá miðju síðast ári ásamt eftirspurnarþrýstingi og viðvarandi spennu á vinnumarkaði hefur leitt til þess að verðbólga er áætluð að vera um 8,3% að meðaltali í ár.

Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá sem fjármálaráðuneytið kynnti í morgun. Þar er fjallað um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála á árunum 2008-2010 auk framreikninga til ársins 2013.

Í forsendum þjóðhagsspárinnar er gert ráð fyrir að fasteignaverð lækki að raungildi um 15% fram til 2010. Nokkur verðbólguþrýstingur er talinn verða enn til staðar árið 2009 en að verðbólga minnki í 3,9%. Spáð er að verðbólga verði komin á 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands á seinni hluta ársins 2009 og verði að meðaltali 2,5% árið 2010.

Aðrar helstu niðurstöður nýrrar þjóðhagsspár eru:

Árið 2008 er áætlað að þjóðarútgjöld dragist saman um 2,3% vegna samdráttar í einkaneyslu og íbúðar- og atvinnuvegafjárfestingu, þrátt fyrir að uppbygging álvers í Helguvík hefjist á árinu. Spáð er að hagvöxtur verði 0,5% á árinu m.a. vegna tæplega 70% aukningar í útflutningi áls og samdráttar innflutnings.

Mjög aukinn samdráttur í einkaneyslu og íbúðarbyggingum leiðir til þess að hagvöxtur dregst saman um 0,7% árið 2009 þrátt fyrir aukna fjárfestingu atvinnuvega. Árið 2010 er gert ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu og fjármunamyndunar ásamt áframhaldandi bata í utanríkisviðskiptum knýi hagvöxtinn sem verði 0,8% það ár.

Viðskiptahalli er áætlaður að hafa verið 15,5% af landsframleiðslu árið 2007 og spáð að dragast áfram saman á næstu árum og verða 13,2% af landsframleiðslu árið 2008 og 7,7% árið 2009 og 6,6% árið 2010.

Áætlað er að spenna á vinnumarkaði hafi náð hámarki í fyrra og að slaki taki að myndast í ár og verði nokkur á næstu árum. Atvinnuleysi, sem var að meðaltali 1,0% af vinnuafli árið 2007 verður 1,9% í ár. Árin 2009 og 2010 er spáð að minnkandi innlend eftirspurn leiði til þess að atvinnuleysi verði 3,8% af vinnuafli árið 2009 og 3,5% árið 2010.

Í framreikningum fyrir árin 2011-2013 er reiknað með 0,7% hagvexti að meðaltali; að verðbólga verði nálægt verðbólgumarkmiði og að viðskiptahallinn nálgist 2,5% af landsframleiðslu í lok tímabilsins.

Áætlað er að afkoma ríkissjóðs verði 1,8% af landsframleiðslu í ár, -1,3% á árinu 2009 og -1% á árinu 2010.

Í rammagrein 1 eru birtar niðurstöður útreikninga á áhrifum margvíslegra frekari stóriðjuframkvæmda og tengdrar uppbyggingar í orkuframleiðslu. Verði af öllum þeim áformum má gera ráð fyrir að árlegur hagvöxtur verði allt að 1,5% meiri árin 2009 til 2011, sem rúmast innan þess framleiðsluslaka sem annars er spáð að myndist í hagkerfinu.

Helstu óvissuþættir í þjóðhagsspánni varða ástand á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, gengi krónunnar, frekari stóriðjuframkvæmdir og endurnýjun kjarasamninga hins opinbera á þessu ári. Sterk staða ríkissjóðs og lífeyrissjóðakerfisins ásamt sveigjanleika og viðnámsþrótti hagkerfisins gera það vel í stakk búið til að bregðast við núverandi aðstæðum og ná jafnvægi á ný.