Eftir algera ládeyðu í jöklabréfaútgáfu frá febrúarlokum hefur ný útgáfa loks litið dagsins ljós, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Þýski þróunarbankinn KfW tilkynnti í morgun um útgáfu á jöklabréfum fyrir þrjá milljarða króna að nafnvirði. Nafnvextir eru 9,5% en krafan nokkru lægri þar sem bréfin voru seld á yfirverði, segir greiningardeildin.

„KfW hefur ekki getað eytt krónuáhættunni á gjaldeyrisskiptamarkaði með þeim hætti sem útgefendur gerðu meðan vaxtamunur við útlönd var enn virkur á þeim markaði. Því er hugsanlegt að ríkisbréf hafi komið við sögu við að vega upp krónustöðu útgefandans vegna þessarar útgáfu. Þar með minnkar ekki staða útistandandi [jöklabréfa ]í júlí, en þrír milljarðar króna eru á gjalddaga undir lok mánaðarins. Útistandandi krónubréf eru nú tæplega 340 milljarðar króna,“ segir greiningardeildin.