*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 16. september 2021 10:43

Ný kærasta felldi óskipt dánarbú

Hæstiréttur sneri í gær við úrskurði Landsréttar þar sem því var hafnað að taka dánarbú konu til opinberra skipta.

Jóhann Óli Eiðsson
Höskuldur Marselíusarson

Hæstiréttur sneri í gær við úrskurði Landsréttar þar sem því var hafnað að taka dánarbú konu til opinberra skipta. Ekkill hennar mótmælti skiptunum en hann hafði leyfi til setu í óskiptu búi samkvæmt sameiginlegri erfðaskrá þeirra. Þar sem hann hafði hins vegar hafið sambúð að nýju var fallist á með barni konunnar að búinu yrði skipt.

Konan átti eitt barn, sóknaraðila málsins fyrir Hæstarétti, sem fæddist árið 1981. Hún hafði lengi verið einstæð en kynntist árið 2011 verðandi eiginmanni sínum. Þau giftust árið 2014 en skömmu áður hafði konan greinst með sjúkdóm sem á endanum hafði betur.

Tólf dögum fyrir andlát hennar undirrituðu hjónin erfðaskrá en samkvæmt henni gat hið langlífara setið í óskiptu búi eftir hitt eins lengi og því sýndist. Sú heimild átti aftur á móti að falla úr gildi ef hið langlífara hefði sambúð eða gengi í hjónaband að nýju eftir andlát hins skammlífara.

Í dómi Hæstaréttar segir að samkvæmt erfðalögum geti hjón ákveðið með erfðaskrá að hið langlífara geti setið í óskiptu búi. Tilgangur umrædds ákvæðis hefði meðal annars verið að styrkja stöðu langlífari maka gagnvart stúpniðjum enda hafði það sýnt sig að þeir væru gjarnari á að krefjast skipta heldur en sameiginlegir niðjar. Ákvæðið girði hins vegar ekki fyrir það að seta í óskiptu búi sé bundin skilyrðum.

„Eins og áður greinir kom fram í sameiginlegri erfðaskrá hinnar látnu og varnaraðila að það hjónanna sem lengur lifði hefði heimild til að sitja í óskiptu búi eins lengi og það vildi. Þessi heimild átti þó að falla niður ef það þeirra sem lengur lifði gengi í hjónaband að nýju eða hæfi sambúð. Að baki þessu bjó augljóslega sá vilji að koma í veg fyrir að langlífari maki stofnaði til fjárhagslegrar samstöðu er fylgir hjúskap eða óvígðri sambúð og gæta þannig hagsmuna stjúpniðja sem ættu arf inni í óskiptu búi,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Eignaðist kærustu í byrjun farsóttar

Hvað varðar hjúskapinn segir Hæstiréttur að sá áskilnaður í skránni hafi verið óþarfi enda kveðið á um slíkt í lögum. Ekkert sambærilegt ákvæði sé hins vegar um slíkt hvað varðar óvígða sambúð. Í dómi Landsréttar var skiptunum hafnað á þeim grunni að ekki stæði lagaheimild til slíkra skilyrða en Hæstiréttur sneri því við þar sem skilyrðið þjónaði sama tilgangi og lagaákvæðið.

Í málinu var óumdeilt að maðurinn hafði kynnt sænskri konu og þau hefðu orðið „kærustupar“ skömmu áður en farsóttin skall á. Þá hafði hann verið skráður til heimilis hjá henni frá maí 2020 til október sama ár.

„Ekki nýtur við almennrar skilgreiningar á óvígðri sambúð í lögum og hafa ekki þýðingu í þessu sambandi lagaákvæði sem taka til slíkrar sambúðar á ýmsum réttarsviðum. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að varnaraðili hafi stofnað til sambúðar í skilningi erfðaskrárinnar og við það hafi fallið niður heimild hans til setu í óskiptu búi eftir eiginkonu sína,“ segir í dóminum.