Hanna Birna Kristjánsdóttir er með 61,4% fylgi meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins, en Bjarni Benediktsson er með 38,6% fylgi.

Kemur þetta fram í nýrri könnun sem MMR vann fyrir Viðskiptablaðið og vb.is. Allir þátttakendur í könnuninni voru stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins og voru þeir spurðir hvoru þeirra tveggja, Hönnu Birnu eða Bjarna, þeir treystu betur til að gegna embætti formanns Sjálfstæðisflokksins.

Heldur hefur dregist saman með frambjóðendunum tveimur frá síðustu könnun, sem unnin var af MMR fyrir Viðskiptablaðið og sagt var frá í blaðinu þann 12. október síðastliðinn. Í þeirri könnun naut Hanna Birna stuðnings 70,3% fylgismanna Sjálfstæðisflokksins, en Bjarni var með 29,7% fylgi.

Hanna Birna er með meira fylgi en Bjarni í nær öllum flokkum þátttakenda. Þegar aldursskipting þátttakenda í könnuninni er skoðuð sést að stuðningur við Hönnu Birnu er mestur meðal yngsta hópsins, þ.e. fólks á aldrinum 18-29 ára, en þar er fylgi hennar 70,6%. Hjá eldri þátttakendum er Hanna Birna með 56,8-59,8% fylgi.

Bjarni nýtur meiri stuðnings en Hanna Birna meðal bænda og sjómanna, en hjá þessum hópi er fylgi Bjarna um 61,9%. Fylgi Hönnu Birnu er mest meðal vélafólks og ófaglærðra, en þar mælist hún með um 84,7% fylgi.

Þegar horft er til heimilistekna er Hanna Birna með meira fylgi en Bjarni í öllum flokkum, en Bjarni er sterkastur meðal þeirra tekjulægstu og tekjuhæstu. Hjá fyrrnefnda hópnum er hann með 48% fylgi og þeim síðarnefnda um 41% fylgi.

Hanna Birna er hins vegar sterkust hjá fólki þar sem heimilistekjur eru á bilinu 400-799 þúsund krónur á mánuði. Þar er fylgið 67,7-68,8%. Spurðir voru 246 þátttakendur, sem sögðust ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum, 85,4% þátttakenda gáfu svar við spurningunni og vikmörk í könnuninni eru 6,6%.

Í Viðskiptablaðinu á morgun verða birtar niðurstöður úr annarri könnun, þar sem almenningur var spurður hvaða stjórnmálamanni það treysti best til að gegna embætti forsætisráðherra.