Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú stærstur stjórnmálaflokka með 26,7% fylgi skv. könnun MMR sem birt var í dag. Fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar þó lítillega frá síðustu könnun sem MMR birti en þá mældist flokkurinn með 27,5% fylgi. Könnunin var gerð dagana 22. apríl til dagsins í dag.

Framsóknarflokkurinn mælist nú með 22,4% fylgi en var með 25,6% fylgi í síðustu könnun. Í niðurstöðu MMR segir að þrátt fyrir að munur á fylgi þessara tveggja flokka mælist nú 4,3 prósentustig sé sá munur innan vikmarka (miðað við 95% vikmörk) og því ekki hægt að álykta að annar flokkurinn hafi meira raunfylgi en hinn.

Samfylkingin mælst nú með 13,0% fylgi, samanborið við 13,5% í síðustu mælingu og Vinstri græn mælast nú með 11,6% fylgi, samanborið við 8,1%. Björt framtíð mælist nú með 7,7% fylgi samanborið við 8,3% í síðustu mælingu og Pírataflokkurinn mælist nú með 7,5% fylgi, samanborið við 6,7% í síðustu mælingu.

Aðrir flokkar mælast með minna fylgi. Lýðræðisvaktin mælist með 3,5% fylgi, Dögun með 2,9% og Flokkur heimilanna með 1,8%.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur aukist lítillega frá því að það mældist lægst um 21% í byrjun apríl. Eins og áður hefur komið fram hefur fylgi flokksins dalað umtalsvert frá áramótum  en flokkurinn mældist með rúmlega 37% fylgi í könnun MMR í desember.

Að sama skapi hefur fylgi Framsóknarflokksins leitað nokkuð niður á við frá því að það mældist hæst tæplega 33% um miðjan apríl eftir að hafa hækkað mjög hratt frá áramótum.

Fylgi Samfylkingarinnar hefur verið í kringum 13% frá því í febrúar en fór lægst niður í 10% um miðjan apríl. Þá hefur fylgi Bjartrar framtíðar leitað nokkuð hratt niður á við frá því a flokkurinn mældist hæst með um 18% fylgi í febrúar.

Vinstri grænir taka hins vegar stökk upp á við en flokkurinn mælis sem fyrr segir nú með 11,6% fylgi en flokkurinn hefur ekki mælst yfir 11% í könnunum MMR frá því fyrir áramót.

Um 88% þátttakenda í könnuninni gaf upp afstöðu til flokka, aðrir kváðust óákveðnir (4,2%), myndu skila auðu (4,4%), myndu ekki kjósa (1,1%) eða vildu ekki gefa upp afstöðu sína (2,4%).

Fylgi stjórnmálaflokkanna skv. MMR könnun 25.04.13
Fylgi stjórnmálaflokkanna skv. MMR könnun 25.04.13