Sjálfstæðisflokkurinn er með 27,9% fylgi í nýrri könnun Capacent Galllup, að því er fram kom í kvöldfréttum RÚV. Flokkurinn er með mesta fylgið í könnuninni. Á eftir er Framsóknarflokkurinn með 24,7% fylgi. Fram kom í fréttum RÚV að fylgi Sjálfstæðisflokksins er mest á SV-horninu og næstmest í Suðurkjördæmi.

Fylgið við Sjálfstæðisflokkinn hefur aukist nokkuð á milli kannanna en í síðustu könnun Capacent Gallup sem RÚV fjallaði um fyrr í mánuðinum mældist flokkurinn með rúmlega 24% fylgi. Á sama tíma hefur dregið úr fylgi við Framsóknarflokkinn en hann mældist í sömu könnun með tæplega 27% fylgi.

Þá fer Samfylkingin úr 15% í 14,6% fylgi nú, VG fer úr tæpum 9% í 10% fylgi, Björt Framtíð fer úr 8% í 6,6% og Píratar úr rúmum 8% í 6,1% nú.

Á eftir fylgja Lýðræðisvaktin með 2,8% fylgdi, Hægri grænir með 2,6% fylgi og er Dögun með jafn mikið fylgi. Þá er Flokkur heimilanna með 1,3% fylgi en önnur framboð með minna.

Könnunin var gerð dagana 18. til 25. apríl. Svarhlutfall í könnuninni var 60%.