Gengi breska sterlingspundsins hefur veikst nokkuð það sem af er degi gagnvart helstu viðskiptamyntum sínum í kjölfar þess að niðurstöður könnunar voru birtar sem gáfu til kynna að hvorki Íhalds- né Verkamannaflokkurinn gæti tryggt sér hreinan meirihluta á breska þinginu.

Könnunin var unnin af breska fyrirtækinu YouGov fyrir Times dagblaðið og gefur til kynna að enginn hreinn meirihluti komi til með að starfa, en sú staða nefnist „hengt þing“, og er slíkt ástand nokkuð sjaldgæft ástand í Bretlandi. Pundið veiktist um allt að 0,5 prósentustig en hefur síðan rétt lítillega úr kútnum. Sterlingspundið hefur til dæmis veikst um tæpt eitt prósentustig gagnvart íslensku krónunni það sem af er morgni.

Samkvæmt könnuninni myndu Íhaldsmenn tapa 20 sætum af þeim 330 sem að flokkurinn hafði fyrir kosningarnar. Hins vegar myndi Verkamannaflokkurinn fá 30 ný þingsæti. Íhaldsflokkurinn væri enn sá stærsti á þingi, en hefði ekki hreinan meirihluta. Í samtali við BBC efast Kathleen Brook hjá City Index um lögmæti könnunarinnar: „Þetta er ekki skoðanakönnun, heldur frekar niðurstöður byggðar á líkani sem hefur ekki verið fullreynt,“ sagði greiningaraðilinn.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, boðaði óvænt til þingkosninga í um miðjan apríl. Kosningarnar verða haldnar 8. júní næstkomandi. 16. apríl síðastliðinn mældist fylgi Íhaldsflokkinn 46% og var þá forskot Íhaldsflokksins sögulegt. Hins vegar virðist taflið hafa snúist við í höndunum á forsætisráðherranum.