Flestir stjórnendur telja aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar en þeim fjölgar mikið sem búast við að þær verði betri eftir sex mánuði, að því er kemur fram í könnun Samtaka atvinnulífsins á meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja Íslands í lok febrúar og byrjun mars.

Framboð af starfsfólki er nægt en helst vottar fyrir skorti á starfsfólki í samgöngum, ferðaþjónustu og sérhæfðri þjónustu. Í heild gera stjórnendur ráð fyrir óbreyttum starfsmannafjölda næstu sex mánuði en að fjárfestingar á þessu ári verði minni en á árinu 2012. Verðbólguvæntingar stjórnenda eru óbreyttar, 4% næstu 12 mánuði og 5% eftir tvö ár og búist er við áframhaldandi veikingu krónunnar.

Sem fyrr telur meirihluti stjórnenda aðstæður slæmar í atvinnulífinu. Nú telja 60% aðstæður vera slæmar en hlutfallið var 68% í síðustu könnun sem gerð var í lok síðastliðins árs. Rúmur þriðjungur telur að þær séu hvorki góðar né slæmar en aðeins 3% að þær séu góðar. Nánast alger samhljómur er meðal stjórnenda í mati á núverandi aðstæðum, hvort sem litið er til atvinnugreina, stærðar fyrirtækja eða hvort um útflutningsfyrirtæki er að ræða eða ekki.

Minni fjárfesting

Mat stjórnenda á aðstæðum eftir sex mánuði er jákvæðara og hefur breyst mikið til hins betra undanfarna mánuði. Nú telja 28% að aðstæður batni en 14% að þær versni, en langflestir (58%) telja að þær verði óbreyttar. Vísitala efnahagslífsins eftir sex mánuði, sem mælir mismun á fjölda þeirra sem telja að ástandið batni og þeim sem telja að það versni, hefur ekki verið hærri síðan árið 2004. Skýringin liggur bæði í fjölgun þeirra sem telja að aðstæður batni og fækkun þeirra sem telja að það versni. Staðan á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni er svipuð í þessu efni. Hlutfallslega flestir sjá fram á bata í fjármálaþjónustu en fæstir í sjávarútvegi og iðnaði. Heldur meiri bjartsýni gætir meðal minni fyrirtækja en lítill munur er á útflutningsfyrirtækjum og öðrum.

Fjárfestingar munu dragast saman á árinu samkvæmt þessari könnun. 22% stjórnenda sér fram á auknar fjárfestingar, 30% að þær minnki og tæpur helmingur býst við að þær verði svipaðar og árið 2012. Mest aukning fjárfestinga er áformuð í samgöngum og ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi og veitum, en horfur eru á miklum samdrætti fjárfestinga í sjávarútvegi og iðnaði. Áform um samdrátt fjárfestinga eru mun almennari meðal smærri fyrirtækja (með færri en 60 starfsmenn), en þeirra stærstu (með fleiri en 200 starfsmenn). Áform um samdrátt fjárfestinga eru áberandi meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.