*

föstudagur, 29. maí 2020
Innlent 9. maí 2019 10:41

Ný laxaskurðvél kynnt í Brussel

Valka kynnti nýja vatnskurðarvél á vinnslusýningu sjávarútvegs í Belgíu, en hún fjarlægir bein úr fiski strax eftir flökun.

Ritstjórn
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Helgi Hjálmarsson framkvæmdastjóri Völku við gangsetningu vélarinnar.
Aðsend mynd

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gangsetti nýja vatnsskurðarvél Völku á Seafood Processing Global sýningunni í Brussel í gær. Vélin er sérstaklega hönnuð til þess að fjarlægja bein og skera laxaflök og er búin tveimur röntgenmyndavélum sem sjá beinin í þrívídd og tveimur hallandi skurðarspíssa sem ná einstakri nákvæmni í skurðinum

Hingað til hafa laxaframleiðendur þurft að bíða þar til fiskurinn hefur lokið dauðastirnun og tína beinin úr eftirá. Með skurðarvélinni er hægt fjarlægja beinin strax eftir flökun sem lengir líftíma vörunnar og sveigjanleiki vélarinnar gerir framleiðendum kleift að framleiða nýjar vörur sem áður var ómögulegt.

„Við erum mjög stolt af því að hafa kynnt nýju laxaskurðarvélina okkar á sýningunni í Brussel. Og við erum spennt að hefja samstarf við laxaframleiðendur í að hámarka flakanýtingu og við framleiðslu á nýjum hágæðavörum,“ sagði Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku við þetta tækifæri.

Fjallað var um Völku í Frjálsri verslun fyrir tæpu ári síðan og mikin vöxt þess, en þá stefndi í að velta félagsins næmi tveimur milljörðum króna.

Um Völku

Valka er hátæknifyrirtæki í sjávarútvegi sem hannar og framleiðir framúrskarandi lausnir fyrir fiskvinnslur um allan heim. Fyrirtækið sem var stofnað árið 2003 hefur frá upphafi einblínt á að auka afköst, bæta nýtingu og meðhöndlum hráefnis hjá viðskiptavinum með því að auka sjálfvirkni og notar til þess nýjustu tækni hverju sinni.

Valka var fyrst fyrirtækja að framleiða sjálfvirkar vatnskurðarvélar og er í dag leiðandi í þróun þeirrar tækni.Fyrirtækið hefur verið í örum vexti og tvöfaldaðist velta Völku árið 2018 frá fyrra ári.

Valka starfar á alþjóðamarkaði og selur vörur og þjónustu víðsvegar í Evrópu og Bandaríkjunum. Hjá Völku starfa um áttatíu sérhæfðir starfsmenn í því að hanna og framleiða kerfislausnir fyrir fiskvinnslur á landi og sjó.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra startar laxaskurðarvélinni.