Í opinberri stórverslun Ólympíuleikanna í Ríó á Copacabana ströndinni, er hægt að fá hvítan bol merktum leikunum á 95 brasilísk real, sem samsvarar um 29 Bandaríkjadali, eða um 3.500 krónur.

Mun ódýrari útgáfa sem samt er opinber

Hins vegar er hægt að fá bol með sama merki á markaðnum í miðborginni á einungis 40 real, eða um 1500 krónur, bolurinn er þó þynnri og úr ódýrara efni. Samt sem áður er ekki um eftirlíkingu að ræða, heldur er hann einnig gerður með heimild Ólympíuleikanna.

Hvort tveggja vegna ótta við lélegar eftirlíkingar sem og vegna þess að mjög margir íbúar landsins hafa ekki efni á miðum á leikana, eða minjagripi, hafa stjórnendur leikanna ákveðið að fara nýjar leiðir í markaðssetningu.

Venjulega hafa stjórnendur stórmóta og ólympíuleika einungis heimilað eina opinbera útgáfu af vörum merktum þeim, og svo barist harkalega gegn öllum eftirlíkingum, en nú ákváðu þeir sem sáu um markaðssetningu fyrir leikana að reyna að sigra framleiðendur eftirlíkinga með því að gefa sjálfir út ódýrari útgáfu sem seld er utan helstu ferðamannastaðanna.

Brasilíski gjaldmiðillinn hefur fallið um 46%

Búist er við að ódýra útgáfan verði um 60% af sölu bola merktum leikjunum og standi fyrir um 40% af tekjunum.

Þó eru bolirnir orðnir mun ódýrari fyrir ferðamenn heldur en útlit var fyrir en síðan ljóst var að leikarnir yrðu haldnir í borginni, hefur verðgildi brasilíska gjaldmiðilsins fallið um 46% gagnvart Bandaríkjadal