Ný löggjöf um heimagistingu tók gildi þann 1. janúar þessa árs. Þar er kveðið á um að einstaklingum er heimilt að leigja út heimili sitt sem og aðra fasteign sem að einstaklingur hefur til persónulegra nota í allt að 90 daga á ári án þess að þurfa að sækja um rekstrarleyfi.

„Helstu markmiðin með nýrri löggjöf eru að bregðast við þróun í gistiframboði hér á landi og jafnframt að bregðast við miklum fjölda leyfislausrar gistingar. Þá eru í lögunum skýrð betur mörkin milli gististarfsemi í atvinnuskyni og tímabundinnar leigu af hálfu einstaklinga gegnum deilihagkerfið.

Áhrif breytinganna munu sjást m.a. í betri yfirsýn um gistiframboð, bættri skráningu og skilum skatttekna af gististarfsemi og einfaldara regluverki fyrir rekstrarleyfi,“ segir í frétt Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um málið sem birt var þegar lögin voru samþykkt.

Um áramótin var einnig opnað fyrir heimasíðu um heimagistingu þar sem að hægt er að skrá heimagistingu. Þar er hægt að skoða lög um heimagistingu, sem tóku gildi 1. janúar 2017.

„Nánar er kveðið á um heimagistingu og skilyrði hennar í lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og lögum nr. 67/2016 um breytingu á þeim lögum .

Þá gilda um heimagistingu ákvæði reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald , sem tók gildi 1. janúar 2017,“ segir á síðu Heimagistingar , sem haldið er úti af Sýslumönnum.

Sprenging í Airbnb

Viðskiptablaðið hefur gert heimagistingu að umfjöllunarefni sínu áður. Þar kemur meðal annars fram að í 101 Reykjavík þá er ein af hverjum átta íbúðum í útleigu í gegnum Airbnb á hverjum degi í júlí 2016, eða 12,5 prósent af heildarfjölda íbúða á svæðinu.

Mismikið eftir hverfum

Á hverjum degi í Reykjavík í júlí árið 2016 þá var 1 af hverjum 23 íbúðum í Reykjavík í útleigu til ferðamanna í gegnum Airbnb, sem þýðir að 4,4% af öllu íbúðarhúsnæði í höfuðborginni hafi verið lögð undir þessa starfsemi segir einnig í skýrslunni.

Eins og við mátti búast þá skiptist hlutfall íbúða sem eru í útleigu í gegnum Airbnb niður eftir póstnúmerum. Hlutfallið er hæst í 101, en í hverfunum 101, 105 og 107 er ein af hverjum þrettán íbúðum í útleigu í gegnum Airbnb.

Fjölgun ferðamanna myndar þrýsting

Til viðbótar þá hefur fjölgun hótela og annars konar gistiþjónustu einnig skert lóðarframboð sem annars hefði verið hægt að nota í nýbyggingu íbúða á þessum svæðum. Það virðist því nokkuð ljóst miðað við það sem kemur fram í skýrslu Íslandsbanka að fjölgun ferðamanna og uppgangur ferðaþjónustunnar hafi myndað ákveðin þrýsting til hækkunar íbúðarverði, sérstaklega miðsvæðis.