Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) býst við því að ný lög um innstæðutryggingar muni verða samþykkt á Alþingi fyrir lok þessa mánaðar. Þetta kemur fram í skýrslu starfsmanna sjóðsins vegna fjórðu endurskoðunar á efnahagsáætlun Íslands.

Lögin munu kveða á um 100 þúsund evra hámarkstryggingu og krefjast þess að framlag viðskiptabanka í tryggingasjóð innstæðueigenda verði hækkað um marga milljarða króna á ári. Þá verður ákvæði í lögunum sem tekur það fram að engin ríkisábyrgð verði á tryggingasjóði innstæðueigenda.

Verði frumvarpið samþykkt mun það gilda afturvirkt frá 1. janúar 2011. Árni Páll Árnason, efnahags-og viðskiptaráðherra, sagði í Viðskiptablaðinu 2. desember að allsherjartrygging á innstæðum, sem er til staðar í formi yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um slíkt, verði áfram í gildi þrátt fyrir að nýju lögin taki gildi.