Lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi féllu úr gildi um áramótin. Í svari Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, kemur fram að ráðuneytið vinni að gerð frumvarps til nýrra rammalaga um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Hyggst Ragnheiður leggja frumvarpið fram nú á vorþingi.

„Þar til slík rammalöggjöf hefur verið tekin upp er hægt að afla heimildar fyrir ráðherra til að gera fjárfestingarsamninga með sérstökum lögum um hvert og eitt fjárfestingarverkefni, ásamt tilkynningu til Eftirlitsstofnunar EFTA,“ segir í svari ráðherrans. Frá því í júlímánuði árið 2010 til síð- ustu áramóta gerðu stjórnvöld sex samninga um nýfjárfestingar.

„Ráðuneytið hefur nokkrar umsóknir um fjárfestingarsamninga til meðferðar og ekki er ólíklegt að gerðir verði samningar um nýfjárfestingar á næstu misserum,“ segir í svari ráðherra.