Ný lög um útgáfu sértryggðra skuldabréfa voru samþykkt á Alþingi í dag. Tilgangur laganna er að skapa umgjörð til þess að viðskiptabankar, sparisjóðir eða lánafyrirtæki geti hlotið leyfi til þess að gefa út sértryggð skuldabréf sem hafi sérstakan tryggingar- og fullnusturétt í safni eigna sem tilheyra útgefanda hins sértryggða skuldabréfs. Lögin öðlast þegar gildi.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi fyrir jól. Þar kom fram að með aukinni útgáfu sértryggðra skuldabréfa hafi þörfin fyrir setningu laga um útgáfu þeirra aukist verulega.

„Í mars 2006 höfðu öll ríki Vestur- og Mið-Evrópu, utan Íslands, Bretlands, Hollands, Belgíu, Hvíta-Rússlands, Eistlands og ríkja sem áður tilheyrðu Júgóslavíu, sett löggjöf um sértryggð skuldabréf," sagði ráðherrann. „Unnið hefur verið að setningu löggjafar í Eistlandi, Hollandi, Bretlandi og Slóveníu."

Hann bætti því við að umrætt frumvarp væri að hluta til byggt á nýlegum sænskum lögum um sama efni. „Í stuttu máli er sértryggt skuldabréf fjármálagerningur sem ber öll helstu einkenni skuldabréfs, þ.e. er skrifleg, einhliða og óskilyrt skuldarviðurkenning, með öðrum orðum loforð um að greiða tiltekna peningafjárhæð á einum eða fleiri gjalddögum."

Fjármálaeftirlitið á að annast eftirlit með framkvæmd laganna. Því er heimilt, samkvæmt lögunum, að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á tilteknum ákvæðum þeirra. Geta þær numið frá 50 þús. kr. til 50 m.kr. og renna í ríkissjóð.