Frumvarp til laga um breytingu á lögum um yfirtökur verður lagt fyrir Alþingi fljótlega eftir að þing kemur saman í haust.

Nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði 20. nóvember á síðasta ári hefur lokið störfum og skilað ráðherra niðurstöðum sínum. Formaður nefndarinnar var Björg Finnbogadóttir, lögfræðingur hjá viðskiptaráðuneytinu, en nefndinni var ætlað að fara yfir ákvæði viðskiptalaga sem varða yfirtökur og gera tillögur um breytingar á þeim.

Aðrir nefndarmenn voru Helgi Sigurðsson, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings, og Viðar Már Matthíasson, lagaprófessor og fyrrum formaður Yfirtökunefndar; auk þeirra skipaði Fjármálaeftirlitið tvo nefndarmenn.

Síðastliðin tvö ár hefur átt sér stað töluverð umræða um þörfina á því að skýra ákvæði viðskiptalaganna sem snerta yfirtökur, en nokkur tilfelli hafa komið upp þar sem ósamræmis hefur gætt í túlkun og úrskurðum Fjármálaeftirlitsins annars vegar og Yfirtökunefndar hins vegar.

Nefndin hætti störfum fyrir skömmu og því eru jafnframt uppi vangaveltur um það hvort frumvarpið geri ráð fyrir nýrri Yfirtökunefnd sem geti gripið til úrræða til að fylgja úrskurðum sínum eftir.